Dagsetning Tilvísun
16. júlí 1997 811/97
Virðisaukaskattur – ritstjórn – ritsmíð
Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. maí sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af þóknun vegna ritstjórnar og ritsmíða.
Í bréfi yðar kemur fram að þér hafið tekið að yður ritstjórn A sem B hyggst gefa út í samvinnu við bókaútgáfuna Þ. Þriggja manna ritnefnd sér um ákvörðunartöku fyrir hönd félagsins og er fyrirspyrjandi einn nefndarmanna. Starf ritstjóra felst einkum í því að stjórna – ásamt ritnefnd – hvernig umbeðið efni, sem arkitektar og aðstandendur látinna arkitekta láta í té, er fram sett. Ritstjóri sér um gerð fullbúinnar lokaprófarkar í hendur bókaforlagsins; kallar eftir nánari upplýsingum, sér um alla samræmingu s.s. á heiti og ártölum samkeppna, sem menn hafa unnið til verðlauna í, heiti teiknistofa o.fl. Jafnframt kemur fram að ritstjóri muni rita formála f.h. ritnefndar og félagsmálasögu arkitekta, væntanlega 25 A-4 blaðsíður.
Í fyrsta lagi skal tekið fram að starfsemi rithöfunda er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sú starfsemi sem felst í ritstjórn, þ.e. að búa ritsmíðar annarra undir prentun er hins vegar virðisauka-skattsskyld enda ekkert undanþáguákvæði laganna sem tekur til þeirrar starfsemi.
Samkvæmt framansögðu ber yður að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þóknun sem þér fáið fyrir ritstjórn A, þ.m.t. fyrir ritun formála f.h. ritnefndar. Hins vegar ber yður ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þóknun sem þér fáið fyrir skrif á félagsmálasögu arkitekta enda sitjið þér við sama borð og aðrir höfundar verksins. Tekið skal fram að ef ekki er sérstaklega greitt fyrir skrifin heldur þau talin vera hluti af ritstjórastarfinu ber yður að innheimta virðisaukaskatt af heildarþóknun fyrir starfið.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.