Dagsetning Tilvísun
22. júní 1992 414/92
Virðisaukaskattur – ritstjórn tímarits.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. apríl 1992, þar sem þeirri spurningu er beint til ríkisskattstjóra hvort vinna yðar við ritstjórn tímaritsins N sé skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt og ef svo sé hvort útgefandi (X) fái virðisaukaskattinn endurgreiddan.
Í bréfinu kemur fram að ritstjóri sé eini starfsmaður tímaritsins og sjái um flesta þætti útgáfunnar, svo sem öflun efnis, umsjón með yfirlestri efnis og öllum þáttum prentunar. Ritstjóri sér ekki um fjármál og ekki um dreifingu. Ritstjóri skrifar ekki í tímaritið nema sérstök ástæða þyki til. Vilji hann rita greinar í tímaritið situr hann við sama borð og aðrir höfundar efnis. Vegna framangreindra starfa fær ritstjóri greidda ákveðna þóknun fyrir hvert útkomið hefti. Þóknun fyrir afnot af eigin bifreið og síma er innifalin í greiðslu til ritstjóra. Tímaritið er félagsrit og er ekki selt í áskrift. Rekstrarkostnaður þess er greiddur með félagsgjöldum. Tímaritið birtir ekki auglýsingar og greiðir höfundum ekki fyrir birtingu greina.
Um skattskyldu vegna ritstjórnar
Spurning um virðisaukaskattsskyldu hefur aðeins þýðingu í þeim tilvikum þegar aðili tekur að sér verk með sjálfstæðri starfsemi. Í erindi yðar kemur ekki beinlínis fram hvort greiðsla til yðar sé verktakagreiðsla eða launagreiðsla. Erindinu verður svarað að því gefnu að um sé að ræða sjálfstæða starfsemi yðar.
Starfsemi rithöfunda er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, þ.m.t. sú starfsemi að rita greinar í blað eða tímarit gegn gjaldi. Atvinnustarfsemi sem felst í því að búa ritsmíðar annarra manna undir prentun (útgáfuþjónusta) er hins vegar virðisaukaskattsskyld.
Samkvæmt því sem fram kemur í bréfi yðar eigið þér engan eða óverulegan þátt í samningu efnis í tímaritið. Að áliti ríkisskattstjóra verður því ekki talið að starfsemi yðar falli undir framangreint undanþáguákvæði laganna. Ekkert annað undanþáguákvæði getur hér átt við.
Af framangreindu leiðir að yður ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi fyrir þjónustu yðar, þ.m.t. talið þeim þætti þóknunar sem felur í sér greiðslu fyrir afnot af bifreið og síma. Athygli yðar skal þó vakin á reglu 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, þar sem segir að sá sem selur vöru eða skattskylda þjónustu fyrir minna en 183.000 kr. (skv. vísitölu 1. jan. sl.) sé undanþeginn skattskyldu.
Um skráningarskyldu útgefanda
Ríkisskattstjóri hefur gefið út leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi. Fylgja þær hjálagðar. Eins og þar kemur fram fæst virðisaukaskattur af kostnaði við útgáfu blaða, bóka og annars prentaðs máls ekki endurgreiddur nema útgefandi sé skráningarskyldur samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Meginskilyrði þess að útgefandi sé skráningarskyldur er að um sé að ræða útgáfustarfsemi í atvinnuskyni.
Að áliti ríkisskattstjóra getur útgáfa N ekki talist skráningarskyld starfsemi, enda virðist útgáfan þáttur í almennri starfsemi félagasamtaka þeirra sem ritið gefur út og ekki í sérstöku fjáröflunarskyni. Sérstök sjónarmið um útgáfustarfsemi félagasamtaka, sem rakin eru í leiðbeiningunum (kafla 2.3, a-lið), eiga að áliti ríkisskattstjóra ekki við útgáfuna.
Samkvæmt framansögðu getur ekki komið til endurgreiðslu virðisaukaskatts af útgáfukostnaði, þ.m.t. þóknun til ritstjóra.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.