Dagsetning Tilvísun
27. febrúar 1998 842/98
Virðisaukaskattur – Sala á köldu vatni.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. september 1997, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því ósamræmi sem sé á milli einkaaðila og opinberra aðila varðandi vatnsveitur en vatnsveitur opinberra aðila innheimti ekki virðisaukaskatt af sölu á köldu vatni.
Í bréfi yðar er jafnframt spurt að því hvort sala á köldu vatni sé undanþegin virðisaukaskatti.
Skattskylda skv. lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Jafnframt tekur skattskyldan til allrar þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema hún sé sérstaklega undanþegin skv. 3. mgr. 2. gr. laganna. Að áliti ríkisskattstjóra teljast verðmæti sem afhent eru í nauðsynlegum og órofa tengslum við undanþegna þjónustu skv. 3. mgr. 2. gr. laganna jafnframt til undanþeginnar starfsemi. Í þessu sambandi skal tekið fram að þegar aðgangur að vatni fylgir fasteign sem leigð er út telst heildarendurgjald vegna útleigunnar til undanþeginnar þjónustu skv. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Skiptir ekki máli í þessu sambandi hvort vatnsgjald ásamt leigugjaldi fyrir lóð er innheimt með fasteignagjöldum sveitarfélags eða með öðrum hætti svo sem ef einkaaðili leigir út fasteign ásamt aðgangi að vatni enda sé þá greitt fyrir aðganginn en ekki eftir notkun.
Í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kemur fram að ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum þeirra beri að innheimta virðisaukaskatt að því leyti sem þeir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila telst starfsemi vatnsveitna ekki til skattskyldrar starfsemi nema að því leyti sem um er að ræða sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
Í 7. gr. laga nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga, segir: ,,Sveitarstjórn er heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið og skal við það miðað að gjaldið standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu (auðk. hér).“ Auk þess er heimæðargjald miðað við rúmmál fasteignar en ekki við raunkostnað vegna lagningar heimæðar, sbr. 1. mgr. 6. gr. Samkvæmt 12. tölul. 6. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, er bygging og viðhald veitukerfa eitt af lögboðnum verkefnum sveitarfélaga og samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 81/1991 skulu bæjarstjórnir í kaupstöðum og bæjum starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja.
Jafnframt skal tekið fram að skráður eigandi fasteignar ber ábyrgð gagnvart sveitarsjóði á greiðslu vatnsgjalds og heimæðargjalds og eru gjöldin tryggð með lögveðsrétti í hlutaðeigandi fasteign eins og önnur gjöld og skattar sem tengd eru fasteign.
Sala opinberra vatnsveitna á vatni (vatnsgjald) er þannig ekki skattskyld enda er rekstur þeirra lögum samkvæmt ekki í hagnaðarskyni. Þegar vatnsveitur selja hins vegar vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, svo sem vélavinnu og rafmagn er sú þjónusta skattskyld. Jafnframt er ljóst að sala vatnsveitna sveitarfélaga á vatni samkvæmt mæli til atvinnufyrirtækja (aukavatnsgjald) er skattskyld ef hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Hins vegar virðist vatnssala til fyrirtækja í umræddu tilviki ekki vera í samkeppni við aðrar vatnsveitur og því ekki virðisaukaskattsskyld sala.
Atvinnufyrirtæki, þ.e. aðilar sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni, selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, skulu innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna.
Með vísan til framangreinds þá fer það eftir atvikum hvort einkaaðilum beri að innheimta virðisaukaskatt af vatnssölu eða ekki. Ef landeigandi byggir t.d. vatnsveitu til að þjónusta sumarbústaðaeigendur sem leigja af honum land og vatnsgjald er hluti af greiðslu fyrir lóðarleigu, þ.e. fasteigninni fylgir aðgangur að vatni, þá er ekki um virðisaukaskattsskylda sölu að ræða. Í þessu tilviki er um að ræða sölu á aðgangi að fasteignatengdum réttindum og þar sem fasteignaleiga er undanþegin virðisaukaskatti ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af vatnsgjaldi í þessu sambandi.
Hins vegar bæri einkaaðila sem selur vatn án tengsla við fasteignaleigu að innheimta virðisaukaskatt af sölunni.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.