Dagsetning                       Tilvísun
23.06.2004                              10/04

 

Virðisaukaskattur – sala á sérfræðiþjónustu til erlends fyrirtækis

Þann 14. apríl 2004 barst ríkisskattstjóra tölvuskeyti frá yður þar sem óskað er eftir „forúrskurði“ ríkisskattstjóra um tiltekin viðskipti umbjóðanda yðar, Náttúrustofu Austurlands. Í skeytinu kemur fram að Náttúrustofa hefur í hyggju selja erlendu fyrirtæki þjónustu, sem felst í vinnu við vöktun, ráðgjöf og umhverfisrannsóknir við álver Alcoa á Reyðarfirði og skýrslugerð þar að lútandi. Óskar Náttúrustofa eftir svari embættisins við því hvort stofunni sé heimilt að gefa út reikninga án virðisaukaskatts, sbr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga), þar sem um sérfræðiþjónustu sé að ræða og þjónustan keypt af hinu erlenda fyrirtæki án kvaða af hálfu Náttúrustofu annarra en vísindalegs höfundaréttar. Jafnframt óskar Náttúrustofan eftir svari embættisins við því hvaða reglur myndu gilda um meðferð virðisaukaskatts ef hið erlenda fyrirtæki væri með starfsstöðvar á Íslandi. Að lokum er óskað eftir upplýsingum um það hvort einhver sérákvæði séu í samningi íslenska ríkisins og Alcoa sem gætu haft áhrif á virðisaukaskattsskyldu Náttúrustofu í ofangreindu tilviki.

Til svars erindi yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Samkvæmt samkomulagi við fyrirspyrjanda, sbr. símtal starfsmanns ríkisskattstjóra við fyrirspyrjanda þann 15. apríl sl., felur svar þetta ekki sér bindandi álit af þeim toga sem kveðið er á um í lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum heldur er það sett fram á grundvelli þess samræmingar og leiðbeiningarhlutverks sem ríkisskattstjóra er falið í 1. mgr. 39. gr. vsk-laga. Sem slíkt felur svarið í sér almennt álit ríkisskattstjóra á skyldu til innheimtu virðisaukaskatts í viðskiptum slíkum sem greinir í erindinu.

Samkvæmt 1. gr. vsk-laga skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum. Skattskyldan nær samkvæmt 2. gr. laganna til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Þar er að finna tæmandi talningu þeirrar þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Sala á þjónustu af þeim toga sem um er spurt fellur ekki undir þá tæmandi talningu. Slík þjónusta fellur því tvímælalaust undir skattskyldusvið virðisaukaskatts.

Samkvæmt 12. gr. vsk-laga er seljanda vöru eða þjónustu, sem fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts, heimilt að falla frá innheimtu virðisaukaskatts við þær aðstæður sem tilteknar eru í lagagreininni.

Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. kemur m.a. fram að vinna og þjónusta sem veitt er erlendis teljist ekki til virðisaukaskattsskyldrar veltu. Um vinnu og þjónustu sem veitt er erlendis segir í greinargerð með því frumvarpi er varð að vsk-lögum að hér sé verið að undanþiggja skattskylda vinnu og þjónustu sem veitt er og seld erlendis. Með undanþáguákvæðinu er þannig eingöngu verið að undanþiggja þjónustu sem innt er af hendi utan íslenskrar lögsögu. Umspurð þjónusta Náttúrustofu Austurlands verður veitt innan íslenskrar lögsögu og fellur því ekki undir umrætt undanþáguákvæði.

Í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. vsk-laga er kveðið á um að sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi sé undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu enda sé þjónustan nýtt að öllu leyti erlendis. Jafnframt er sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu þó að þjónustan sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laganna. Í ákvæðinu er talið upp í stafliðum a til i hvaða þjónusta fellur undir undanþáguákvæðið. Í staflið c er talin upp ráðgjafarþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærileg sérfræðiþjónusta, þó ekki vinna við eða þjónusta sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi. Umspurð vinna sem Náttúrustofa hyggst inna af hendi getur ekki fallið undir ákvæðið þar sem vinnan varðar fasteignir og lausafjármuni hér á landi og telst hún því ekki nýtt að öllu leyti eða að hluta til erlendis í skilningi ákvæðisins. Að mati ríkisskattstjóra koma hvorki aðrir stafliðir 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. né aðrir töluliðir 1. mgr. 12. gr. til álita í umspurðu tilviki.

Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að sú vinna sem Náttúrustofa Austurlands hyggst selja hinu erlenda fyrirtæki sé virðisaukaskattsskyld. Tekið skal fram að erlent fyrirtæki, sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi, getur fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem það greiðir við kaup á vörum og þjónustu hér á landi til atvinnustarfsemi sinnar að uppfylltum þeim skilyrðum sem kveðið er á um í reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.

Erlendur aðili sem selur hér á landi skattskylda vöru eða þjónustu er, með sama hætti og aðrir, skyldur til að tilkynna um starfsemi sína til skattstjóra, innheimta virðisaukaskatt af þessum viðskiptum og standa skil á honum í ríkissjóð, sbr. 3. og 5. gr. vsk-laga. Skylda Náttúrustofu til innheimtu virðisaukaskatts af umspurðri vinnu breytist ekki þó að hið erlenda fyrirtæki sé skráningarskylt hér á landi.

Ríkisskattstjóra er ekki kunnugt um hvort í samningi íslenska ríkisins og Alcoa er að finna skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart Alcoa að því er virðisaukaskatt varðar. Hins vegar er ljóst að slíkur samningur einkaréttarlegs eðlis getur ekki breytt lagaskyldu þriðja aðila til innheimtu virðisaukaskatts í viðskiptum við samningsaðila.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Sigurjón Högnason

Guðlaug M Valdemarsdóttir