Dagsetning                       Tilvísun
20. des. 1990                             179/90

 

Virðisaukaskattur – sala bóka á íslenskri tungu.

Með bréfi yðar, dags. 10. desember sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvernig túlka beri 10. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt, þar sem kveðið er á um að sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra, teljist ekki til skattskyldrar veltu.

Í bréfinu er vakin athygli á því að nokkrir útgefendur, sem gefa út bækur á erlendum tungumálum, hafi ekki innheimt virðisaukaskatt af sölu bóka sinna og sagt bóksölum að þær beri ekki virðisaukaskatt. Virðast þeir byggja á því að formáli bókanna er á íslensku. Hefur a.m.k. einn útgefandi gripið til þess ráðs að líma miða með íslenskum texta fremst í bók sem annars er öll á erlendu máli.

Í bréfi yðar er spurt um eftirfarandi atriði:

  1. Hvort undanþáguákvæðið taki til sölu bóka sem gefnar eru út á erlendum tungumálum, hverju nafni sem bækur þessar nefnist; listaverkabækur, ljósmyndabækur o.s.frv.
  1. Hvort ávæðið taki til sölu bóka sem bæði eru með íslenskum og erlendum texta. Hve mikill hluti bókar þurfi að vera á íslensku til að undanþágan taki til hennar.
  1. Hvort nægilegt sé að líma miða með íslenskum texta fremst í bók, sem annars er eingöngu með texta á erlendu máli, til þess að hún falli undir ákvæðið.
  1. Hvaða ráðstafanir ríkisskattstjóri geri til að sjá um að allir íslenskir útgefendur bóka með texta á erlendu máli sitji við sama borð.

Til svars erindinu vísast til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 24. ágúst 1990, til F og A, sem hjálagt fylgir í ljósriti. Varðandi einstök atriði í bréfi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Um l. lið:

Í bréfi ríkisskattstjóra kemur m.a. fram að 10. tölul. l. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga tekur ekki til bóka á erlendum tungumálum, hvort sem höfundur og/eða útgefandi er íslenskur eða erlendur. Bækur, sem eingöngu eru með erlendum texta, bera 24,50 virðisaukaskatt, einnig erlendar listaverkabækur, ljósmyndabækur og aðrar bækur þar sem texti er minni hluti efnis. Í þessu sambandi skal þess getið að ríkisskattstjóri telur að undanþágan taki almennt ekki til bóka án texta í meginmáli þótt gefnar séu út af íslenskum útgefendum.

Um 2. og 3. lið :

Ríkisskattstjóri skýrir undanþáguákvæðið þannig að a.m.k. helmingur texta bókar þurfi að vera á íslensku til þess að undanþáguákvæðið taki til hennar. Sé hinn íslenski texti jafngildur erlendum texta í bók, þ.e. ef um er að ræða sama texta á tveimur eða fleiri tungumálum, er þó ekki skilyrði að íslenski textinn nemi a.m.k. helmingi efnis. Þetta á t.d. við um ýmsar landkynningarbækur með sama texta á mörgum tungumálum, þ.m.t. íslensku. Hins vegar er ekki nægilegt að t.d. aðeins formáli bókar sé á íslensku ef hún er að öðru leyti á erlendu máli.

Sérstaklega skal tekið fram að undanþáguákvæðið nær til kennslubóka í erlendum tungumálum, enda séu útskýringar og leiðbeiningar á íslensku. Einnig tekur ákvæðið til orðabóka, bæði íslensk-íslenskra og tvítyngdra orðabóka, þar sem íslenska er annað tungumálið.

Um 4. lið:

Ríkisskattstjóri hefur kynnt útgefendum og bóksölum túlkun sína á því undanþáguákvæði sem hér er til umræðu, bæði með því bréfi sem fylgir hjálagt og með auglýsingum í dagblöðum. Efnisatriði þessa bréfs verða kynnt samtökum bókaútgefenda og bókaverslana.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.