Dagsetning Tilvísun
28. sept. 1991 350/91
Virðisaukaskattur – sala bóka á íslenskri tungu.
Með bréfi yðar, dags. 5. mars 1991, er leitað álits ríkisskattstjóra á því hvort sala handbókar um ritun enskra viðskiptabréfa, sem þér hyggist gefa út, verði talin undanþegin skattskyldri veltu. Bókinni er lýst þannig að hluti hennar verði sýnishorn af viðskiptabréfum á ensku með skýringum á íslensku. Einnig er fyrirhugað að í bókinni verði viðskiptabréf á íslensku og kafli með almennum hagnýtum upplýsingum á íslensku fyrir íslenskt viðskiptafólk.
Ríkisskattstjóri hefur gefið út leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi og fylgja þær hjálagðar. Eins og þar er gerð grein fyrir (kafli 4.2) eru aðeins þær bækur, sem eru á íslenskri tungu, undanþegnar skattskyldri veltu við sölu. Ríkisskattstjóri hefur skýrt þetta skilyrði þannig að a.m.k. helmingur heildartexta bókar þurfi að vera á íslensku til að undanþáguákvæðið gildi um hana. Þó lítur ríkisskattstjóri svo á að undanþáguákvæðið nái til kennslubóka í erlendum tungumálum, sem eðli málsins samkvæmt eru að miklu leyti á erlendu máli, ef útskýringar og leiðbeiningar eru á íslensku. Virðist sú regla geta gilt um þá bók sem þér hafið í undirbúningi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.