Dagsetning Tilvísun
27.01.2005 02/05
Virðisaukaskattur, sala kennsluefnis og umboðssala á bókum
Með bréfi, dags. 1. október 2004, barst ríkisskattstjóra fyrirspurn skólans þar sem óskað er eftir svari ríkisskattstjóra við því álitaefni hvort sala kennsluefnis á vegum skólans sé virðisaukaskattsskyld. Í bréfinu kemur fram að skólayfirvöld líti fyrst og fremst á þessa sölu sem þjónustu við nemendur og um enga álagningu að hálfu skólans sé að ræða. Annars vegar séu seld ljósrit af kennsluefni sem kennarar hafa látið fjölritunarstofu skólans útbúa og séu ljósritin seld á kostnaðarverði, þ. e. miðað er við pappírskostnað og rekstrarkostnað ljósritunarvélar. Hins vegar sé um að ræða umboðssölu kennslubóka frá sjö aðilum þar sem andvirði sölunnar er gert upp með því að greiða reikninga útgefenda og óseldum bókum sé skilað. Virðisaukaskattur er innifalinn í reikningsupphæð og ekki er um neina álagningu að ræða af hálfu skólans.
Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:
Í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga), er skattskyldusvið virðisaukaskatts markað. Tekur það m.a. til allra vara. Sala bóka og ljósrita fellur þannig ótvírætt undir skattskyldusviðið. Í 3. gr. vsk-laga er kveðið á um það, á hverjum hvíli almennt skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Samkvæmt 4. tölul. þeirrar greinar hvílir virðisaukaskattsskylda á ríki, bæjar og sveitarfélögum og stofnunum og fyrirtækjum þeirra að því leyti sem þeir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Í 5. gr. laganna eru ákvæði um skyldu þeirra, sem falla undir skattskyldu skv. 3. gr., til að tilkynna sig til skráningar á grunnskrá virðisaukaskatts. Eðli máls samkvæmt eru ákvæði þessi efnislega samofin.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. vsk-laga ber hverjum þeim sem fellur undir virðisaukaskattsskyldu skv. 3. gr., þ.m.t. vegna samkeppnissjónarmiða sbr. framanritað, að tilkynna um starfsemi sína til skráningar eigi síðar en átta dögum áður en hún hefst. Tilkynningu skal beina til skattstjóra í því umdæmi þar sem hinn tilkynningarskyldi á lögheimili. Eins og að framan greinir eru opinberar stofnanir (þ.m.t. skólar) virðisaukaskattsskyldar að því leyti sem þær selja vörur í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Þessi regla er nánar útfærð í 5. mgr. 5. gr. vsk-laga þar sem fram kemur að eigi skuli skrá aðila á virðisaukaskattsskrá ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Það er því skilyrði skráningar á grunnskrá virðisaukaskatts að sala vöru- og/eða skattskyldrar þjónustu sé í hagnaðarskyni gerð, þ.e. að miðað sé að rekstrarhagnaði með starfseminni. Jafnframt skal bent á að undanþegnir skattskyldu skv. 3. gr. eru þeir sem selja skattskylda vöru og þjónustu fyrir minna en 220.000 kr. á ári, sbr. 3. tölul. 4. gr. vsk-laga.
Með hliðsjón af framansögðu og miðað við þá lýsingu sem fram kemur í fyrirspurnarbréfinu, á þeirri ljósrita- og bóksölu sem skólinn hefur með höndum, verður ekki annað ráðið en að vegna skilyrða 5. mgr. 5. gr. vsk-laga sé ekki fyrir að fara skyldu til skráningar á grunnskrá virðisaukaskatts. Þó er rétt að geta þess, vegna orðnotkunar í fyrirspurnarbréfinu, að svar þetta felur ekki í sér úrskurð í þeim skilningi að um skattákvörðun sé að ræða eða bindandi álit skv. lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Framangreint svar setur ríkisskattstjóri fram á grundvelli þess leiðbeiningarhlutverks sem honum er falið í 1. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra
Elína M. Ingólfsdóttir
Guðrún Þorleifsdóttir