Dagsetning                       Tilvísun
5. mars 1992                            391/92

 

Virðisaukaskattur – Sala kvikmyndaréttar til erlendra sjónvarpsstöðva.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. desember sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna sölu kvikmyndaréttar til X sjónvarpsstöðva. Í bréfinu er óskað upplýsinga um 7% virðisaukaskatt sem virðist vera lagður á í X og hvort hægt sé að fá þann skatt endurgreiddan.

Ríkisskattstjóri hefur að vísu ekki sérstaka þekkingu á þýskri virðisaukaskattslöggjöf, en þó liggur fyrir að X lög um þetta efni byggja á tilskipun Evrópubandalagsins frá 17. maí 1977 (tilskipun 77/388/EEC) með síðari breytingum. Í tilskipun þessari er m.a. að finna reglur um í hvaða landi skuli leggja á virðisaukaskatt þegar þjónustuviðskipti eiga sér stað milli aðila í sitt hvoru landinu. Í e-lið 2. tölul. 9. gr. kemur fram að framsal höfundaréttar og sambærilegra réttinda til skattskylds aðila sem staðsettur er í bandalaginu en ekki í sama ríki og þjónustusali, skuli skattleggjast í því landi þar sem kaupandi hefur fastan starfsstað, sem þjónustan er veitt til, og – þegar ekki er um slíkan stað að ræða – í því landi þar sem hann hefur fast heimilisfang eða venjulegt aðsetur.

Samkvæmt framansögðu verður að álíta að X lög telji afhendingu þjónustu yðar hafa farið fram í X og hana beri því að skattleggja þar. Virðisaukaskattur sem fram kemur á afreikningi, sem kaupandi hefur útbúið vegna viðskiptanna, er útskattur yðar sem kaupandi hefur skilað til X ríkisins fyrir yðar hönd. Skattur þessi er hins vegar ekki virðisaukaskattur (innskattur) sem þér hafið greitt vegna kaupa á vöru eða þjónustu í X vegna atvinnu yðar. Skatturinn fæst því ekki endurgreiddur.

Þess skal getið að íslenskar virðisaukaskattsreglur byggja á sömu meginreglum og fram koma í áðurnefndri tilskipun Evrópubandalagsins. Þannig er endurgjald fyrir sölu á höfundarétti o.fl. undanþegið hérlendum virðisaukaskatti þegar selt er til erlends atvinnufyrirtækis sem selur skattskylda vöru eða þjónustu, sbr. I. kafla reglugerðar nr. 194/1990. Slíkar greiðslur skattleggjast hins vegar hérlendis ef höfundaréttur o.s.frv. er keyptur frá útlöndum, sbr. II. kafla reglugerðarinnar.

Varðandi þá spurningu, sem fram kemur í erindi yðar, hvort í framtíðinni eigi að leggja 7% virðisaukaskatt á ofan á samningsfjárhæðir, verður ekki betur séð en í samningi yðar og hins þýska kaupanda komi fram að 7% virðisaukaskattur sé innifalinn í samningsfjárhæð, sjá t.d. § 8 í samningi dags. 3. des. 1990.

 

Virðingarfyllist,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.