Dagsetning                       Tilvísun
2. mars 1992                            388/92

 

Virðisaukaskattur – sala nótnabóka.

Fjármálaráðuneytið hefur sent ríkisskattstjóra til afgreiðslu erindi yðar, dags. 14. febrúar 1990, um virðisaukaskatt af sölu nótnabóka. Fram kemur í erindinu að útgáfa tónverka er af ýmsu tagi og fylgja þrjú sýnishorn:

a) R eftir A.

b) Sjö lög úr B eftir C.

c) D fyrir byrjendur (l. hefti) eftir E.

Ríkisskattstjóri hefur gefið út leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi og fylgja þær hjálagðar. Í leiðbeiningunum er meðal annars gerð grein fyrir því ákvæði virðisaukaskattslaga sem undanþiggur sölu bóka skattskyldri veltu (10. tölul. l. mgr. 12. gr.). Eins og þar kemur fram (kafli 4.2) er undanþáguákvæðið bundið við bækur sem eru á íslenskri tungu. Ríkisskattstjóri lítur svo á að í þessu skilyrði felist að undanþágan gildi ekki um bækur sem eru án texta í meginmáli. Því eru nótnabækur aðeins undanþegnar ef íslenskur texti er með nótunum eða ef skýringar og leiðbeiningar á íslensku eru með nótum í bók (kennslubók). Fyrirsagnir með nótum (heiti laga) getur að áliti ríkisskattstjóra ekki talist nægilegt í þessu sambandi, sbr. Sjö lög úr B eftir C, sem fylgdi bréfi yðar.

Undanþáguákvæðið tekur aðeins til rita sem geta talist bækur í venjulegum skilningi þess orðs. Nótnaútgáfa sem ekki er í formi bókar, heldur gefin út sem smáprent, bæklingur o.þ.h., verður því ekki felld undir þetta ákvæði. Sú útgáfa á R eftir A (fjórblöðungur án kápu) sem þér létuð fylgja bréfi yðar verður til dæmis ekki talin vera í bókarformi.

Heftið D fyrir byrjendur er í bókarformi og uppfyllir skilyrðið um íslenskan texta, einnig þótt sami texti sé þar á ensku.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.