Dagsetning                       Tilvísun
11. júní 1991                             275/91

 

Virðisaukaskattur – sala sendibifreiða.

Með bréfi yðar, dags. 13. maí sl., er leitað álits ríkisskattstjóra á því hvort það felist í 4. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt að sendibifreiðastjóri sem hættir rekstri skuli ekki innheimta virðisaukaskatt af sölu sendibifreiðar sem hann hefur notað við starfsemi sína við sölu til annars skráningarskylds sendibifreiðastjóra. Er þá miðað við að kaupandi fái ákveðin starfsréttindi við kaupin, þ.e.a.s. atvinnuleyfi þar sem það á við og afgreiðslu á viðurkenndri stöð.

Ríkisskattstjóri túlkar 4. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt þannig að eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta fyrirtækis liggi fyrir í skilningi ákvæðisins þegar; (1) seljandi hættir rekstri fyrirtækis eða hættir rekstri afmarkaðs rekstrarþáttar (hluta fyrirtækis) og (2) kaupandi annaðhvort heldur áfram rekstri fyrirtækisins eða notar hina keyptu rekstrarfjármuni á annan sambærilegan hátt við atvinnustarfsemi sína.

Ríkisskattstjóri lítur svo á að ákvæðið taki m.a. til þess þegar svo háttar sem greinir í fyrirspurn yðar, þ.e. (1) sendibifreiðastjóri hættir sendibifreiðaakstri, (2) selur sendibifreið, sem hann hefur notað, til aðila sem hyggst nota hana við sendibifreiðaakstur og (3) kaupandi hefur eða fær við kaupin afgreiðslu á viðurkenndri bifreiðastöð, sbr. 2. gr. laga nr. 77/1989, um leigubifreiðar. Sé eitthvert þessara þriggja skilyrða ekki uppfyllt ber seljanda að innheimta og skila virðisaukaskatti af hinu selda. Seljandi skal tilkynna viðkomandi skattstjóra um eigendaskipti og söluandvirði eigi síðar en átta dögum eftir að eignayfirfærsla fór fram.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.