Dagsetning Tilvísun
18. júní 1991 286/91
Virðisaukaskattur – sérfræðistörf lækna.
Með bréfi yðar, dags. 18. mars 1993., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort sérfræðingar í læknastétt þurfi „að skila verktakareikningum með prentuðu nafni og kennitölu útgefanda, raðnúmeri og virðisaukaskattsnúmeri“ vegna vinnu við eftirtalin sérfræðistörf fyrir embætti landlæknis:
– Samningu álitsgerða í tilefni kvartana og kæra er varða samskipti almennings og heilbrigðisstétta, og
– samningu sérfræðilegra álitsgerða við endurskoðun heilsufarsákvæða reglugerða.
Til svars erindinu skal tekið fram að lækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta er undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Sérfræðistörf af því tagi, sem tilgreind eru hér að ofan, virðast ýmist fela í sér mat á því hvort tiltekin læknismeðferð hafi verið tilhlýðileg eða hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir sjúkdóma. Að áliti ríkisskattstjóra eru þessi sérfræðistörf lækna þáttur í almennri læknisþjónustu og þannig undanþegin virðisaukaskattsskyldu.
Ákvæði laga um virðisaukaskatt, þ.m.t. um sölureikninga, taka ekki til óskráðra aðila, þ.e. þeirra sem eingöngu stunda starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti. Óskráðir aðilar hafa ekki virðisaukaskattsnúmer.
Hins vegar taka ákvæði bókhaldslaga og reglugerðar um bókhald til lækna. Í 7. gr. reglugerðar nr. 417/1982, um bókhald, er kveðið á um form og efni sölureikninga og segir þar m.a. að hver nóta eða reikningur skuli bera greinilega með sér nafn, nafnnúmer (nú kennitölu) og heimilisfang seljanda og skulu blöð frumbóka og laus reikningseyðublöð vera fyrirfram tölusett í samfelldri töluröð, enda sé ekki notað öruggara eftirlitskerfi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.