Dagsetning                       Tilvísun
6. sept. 1991                             334/91

 

Virðisaukaskattur – sérstök skráning.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. nóvember 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á nokkrum atriðum er varða reglur um sérstaka skráningu vegna byggingar fasteigna, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga um virðisaukaskatt (vskl.). Fyrirspurnunum er svarað í þeirri röð sem þær eru bornar upp í bréfi yðar.

  1. Spurt er (a) hvort félag sem keypt hefur land undir byggingaframkvæmdir geti sótt um sérstaka skráningu vegna gatnagerðaframkvæmda, lagningar skolpröra o.þ.h. og fengið innskattsfrádrátt vegna þeirra, (b) hvort máli skipti í þessu tilliti hvort um sé að ræða íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði og (c) hvort virðisaukaskattur vegna vinnu manna á byggingarstað við íbúðarhúsnæði fáist endurgreiddur ef skilyrði til sérstakrar skráningar eru ekki fyrir hendi.

Svar: Að áliti ríkisskattstjóra taka reglugerðir nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, og nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu, m.a. til framkvæmda atvinnufyrirtækja við undirbúning lands undir byggingu. Þannig er þeim sem á eigin lóð eða leigulóð notar vinnuafl launþega við gatnagerðarframkvæmdir, lagningu holræsa o.s.frv. til eigin nota, leigu eða sölu skylt að reikna og skila virðisaukaskatti samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 576/1989.

Að uppfylltum skilyrðum samkvæmt reglugerð nr. 577/1989 getur byggingaraðili fengið sérstaka skráningu og talið til innskatts m.a. þann virðisaukaskatt sem hann hefur greitt verktökum vegna undirbúnings byggingarsvæðis fyrir framkvæmdir.

Meginskilyrði fyrir sérstakri skráningu er að sú fasteign, sem skráning tekur til, sé seld virðisaukaskattsskyldum aðila sem hyggst nota hana fyrir atvinnurekstur sinn. Sérstök skráning fæst því ekki vegna mannvirkja sem ekki eru seld ákveðnum aðilum heldur afhent sveitarfélagi til almenningsþarfa, sbr. 30. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

Sérstök skráning fæst ekki vegna byggingar íbúðarhúsnæðis. Virðisaukaskattur af vinnu manna á byggingarstað íbúðarhúsnæðis er endurgreiddur til byggjenda, sbr. reglugerð nr. 449/1990. Endurgreiðslan tekur skv. 3. gr. þeirrar reglugerðar aðeins til vinnu manna við framkvæmdir innan lóðamarka íbúðarhúsnæðis.

  1. Spurt er hvort unnt sé að sækja um sérstaka skráningu vegna byggingar atvinnuhúsnæðis þó ekki hafi verið gerður kaupsamningur við skattskyldan aðila.

Svar: Eins og fram kemur í 3. gr. reglug. nr. 577/1989 getur skattstjóri samþykkt að skrá sérstakri skráningu þann sem byggir á eigin lóð eða leigulóð fasteign til sölu til virðisaukaskattsskylds aðila þótt ekki hafi verið gerður samningur um sölu atvinnuhúsnæðis, enda fallist skattstjóri á skýrslu aðila um að viðkomandi eign sé ætluð til nota fyrir atvinnurekstur skattskylds aðila. Sá sem óskar eftir sérstakri skráningu af þessu tagi skal leggja fram tryggingu fyrir endurgreiddum skatti. Trygging skal vera í því formi sem skattstjóri samþykkir; t.d. má setja tryggingu með því að koma sparisjóðsbók í geymslu, með fasteignaveði, bankaábyrgð eða ábyrgð vátryggingarfélags eða annars jafngilds aðila.

  1. Spurt er hvort reglur um innskatt vegna sérstakrar skráningar séu í einhverju frábrugðnar almennum reglum um innskattsfrádrátt.

Svar: Sérstök skráning veldur því að byggingaraðili fær víðtækari rétt til frádráttar innskatts en hann nýtur samkvæmt reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, þ.e. einnig má telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem byggingaraðili greiðir verktökum vegna vinnu þeirra við viðkomandi byggingu og vegna kaupa á efni til byggingarinnar sem ekki hefur sætt neins konar aðvinnslu af hálfu byggingaraðila sjálfs eða starfsmanna hans.

Engar sérstakar takmarkanir eru á innskattsfrádrætti þess sem skráður er sérstakri skráningu, en það leiðir af almennum reglum virðisaukaskattslaga að einungis má telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem varðar þá starfsemi sem skráning tekur til.

  1. Spurt er hvaða áhrif það hefur ef eign er seld aðila sem ekki er skattskyldur eftir að virðisaukaskattur hefur fengist endurgreiddur á grundvelli sérstakrar skráningar. Þá er spurt hvað felist í því að kaupandi skuldbindi sig til að yfirtaka kvöð um leiðréttingu innskatts.

Svar: Hafi sérstök skráning fengist á grundvelli 3. gr. reglugerðar nr. 577/1989, þ.e. áður en kaupsamningur lá fyrir, veldur sala til óskráðs aðila því að byggingaraðila ber að skila útskatti skv. l. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar og endurgreiða innskatt skv. 2. málsl. 2. mgr. sömu greinar.

Það er meðal skilyrða fyrir sérstakri skráningu skv. l. gr. reglugerðarinnar að kaupandi skuldbindi sig gagnvart ríkissjóði til að leiðrétta þann virðisaukaskatt sem fæst niðurfelldur eða endurgreiddur vegna skráningarinnar. Um þessa leiðréttingu fer samkvæmt ákvæðum í IV. kafla reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt. Nauðsynlegt er að tilkynna skattstjóra sérstaklega um yfirtöku á leiðréttingarskyldu, sbr. 15. gr., og er ekki nægilegt að ákvæði um hana sé í samningi aðila. Fram kemur í 14. gr. reglugerðarinnar að leiðréttingarskylda vegna fasteigna er virk næstu tíu reikningsár talið frá og með því ári þegar endurgreiðsla virðisaukaskatts fékkst.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.