Dagsetning                       Tilvísun
30. júlí 1990                             119/90

 

Virðisaukaskattur – Sjávarútvegshúsið.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. apríl sl. , þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort virðisaukaskattur sem greiddur er vegna endurbóta og viðgerða á Sjávarútvegshúsinu fáist endurgreiddur.

Samkvæmt upplýsingum yðar eru ýmsar ríkisstofnanir staðsettar í Sjávarútvegshúsinu; Hafrannsóknarstofnun, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Sjávarútvegsráðuneytið. Segir í bréfi yðar að a.m.k. ein þessara stofnana hafa virðisaukaskattskylda starfsemi með höndum.

Til svars erindinu skal tekið fram að aðilar sem hafa virðisaukaskattsskylda starfsemi með höndum geta talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem þeir greiða vegna endurbóta, viðhalds o.fl. á húsnæði sem þeir nota eingöngu vegna sölu sinnar á vörum og skattskyldri þjónustu.

Enginn virðisaukaskattur fæst frádreginn eða endurgreiddur vegna húsnæðis sem einungis er notað fyrir skattfrjálsa starfsemi.

Þegar húsnæði er bæði notað fyrir skattskyldan rekstur og til annarra þarfa gilda sérstakar reglur um frádrátt virðisaukaskatts, sbr. reglugerð nr. 530/1989. Gerð er grein fyrir þessum reglum á bls. 34 í leiðbeiningariti ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt (RSK 11.15) og vísast þangað um þetta atriði.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.