Dagsetning Tilvísun
19. feb. 1990 23/90
Virðisaukaskattur – sjúkranudd.
Fjármálaráðuneytið hefur sent embætti ríkisskattstjóra til afgreiðslu erindi félagsins, dags. 27. nóvember sl., varðandi virðisaukaskatt af sjúkranuddi.
Til svars erindinu skal tekið fram að ýmis heilbrigðisþjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1988, um virðisaukaskatt. Beinlínis er tekið fram í ákvæðinu að lækningar og tannlækningar séu undanþegnar virðisaukaskatti, en jafnframt er „önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta“ undanþegin. Við ákvörðun þess hvort tiltekin þjónusta falli undir undanþáguákvæðið verður starfsemin að mati ríkisskattstjóra að uppfylla eftirtalin skilyrði:
1. Um sé að ræða þjónustu aðila sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál.
2. Almennt sé þjónusta
a) veitt einstaklingum á grundvelli tilvísunar frá lækni og/eða
b) hún greidd af Tryggingastofnun ríkisins eða sjúkrasamlagi að hluta eða að fullu.
Sjúkranuddarar falla undir lög nr. 24/1985, sbr. reglug. nr. 204/1987. Því er sú þjónusta þeirra sem uppfyllir skilyrði 2. töluliðar hér að ofan undanþegin virðisaukaskatti.
Almennt nudd er skattskylt og skiptir ekki máli þótt nuddþjónustan sé veitt i tengslum við starfsemi heilsuræktarstöðvar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.