Dagsetning Tilvísun
24. júní 1992 418/92
Virðisaukaskattur – Skattskylda sjávarútvegssýningar.
Með símbréfi yðar, dags. 18. júní sl. er óskað upplýsinga ríkisskattstjóra varðandi nokkur atriði um virðisaukaskatt vegna erlends aðila sem stendur fyrir alþjóðlegri sjávarútvegssýningu á Íslandi.
a) Spurt er um skatthlutfall virðisaukaskatts á Íslandi.
Svar: Virðisaukaskattur er 24,5% og reiknast af heildarandvirði hins selda (án virðisaukaskatts)..
b) Spurt er hvort heimilt sé að gefa út reikninga á Íslandi í sterlingspundum.
Svar: Erlent fyrirtæki er skráningarskylt samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef það selur hér á landi vöru eða skattskylda þjónustu. Hafi fyrirtækið ekki starfsstöð hérlendis (útibú eða dótturfyrirtæki) hvílir skráningar- og skattskylda á umboðsmanni þess eða öðrum innlendum aðila sem er í fyrirsvari fyrir það, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga. Á sölureikningum sem gefnir eru út til innlendra kaupenda skal tilgreina nafn og kennitölu umboðsmanns til viðbótar almennum atriðum sem skulu koma fram á reikningum samkvæmt reglum þar um. Heimilt er að gefa sölureikning út í erlendri mynt, en við sölu til íslenskra aðila er skilyrði að annaðhvort fjárhæð virðisaukaskatts eða sú fjárhæð sem virðisaukaskattur er reiknaður af sé tilgreind í íslenskum krónum. Afrit sölureikninga og önnur bókhaldsgögn skulu varðveitt hérlendis hjá umboðsmanni.
c) Spurt er hvort eftirtalin þjónusta sýningarfyrirtækisins sé skattskyld og ef svo er hvort í einhverjum tilvikum sé heimilt að halda slíkri þjónustu utan skattskyldrar veltu?
i) Leiga á sýningarrými, þar sem einstakir sýnendur reisa eigin sýningarbása.
ii) Leiga á sýningarrými og uppsetning á sýningarbás.
iii) Leiga á sýningarrými, uppsetning á sýningarbás auk viðbótar útbúnaðar.
Svar: Útleiga á sýningarrými og annarri aðstöðu til kynningar á framleiðslu- eða söluvörum aðila eða þjónustustarfsemi hans er að áliti ríkisskattstjóra skattskyld starfsemi (auglýsingaþjónusta), sbr. 2. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Þannig skal sá sem stendur fyrir sýningunni (sýningarhaldari) innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi sem einstakir sýnendur greiða fyrir þátttöku svo og vegna kaupa á annarri skattskyldri þjónustu og vörum. Sala á efni og vinnu við uppsetningu sýningarbása o.fl. er skattskyld. Aðgangseyrir að vörusýningum er virðisaukaskattsskyldur.
Undanþága þegar selt er ti1 erlends aðila.
Samkvæmt reglugerð nr. 194/1990 er m.a. sala auglýsingaþjónustum, þ.m.t. endurgjald vegna þátttöku á vörusýningu, svo og leiga lausa fjármuna, undanþegin skattskyldri veltu þegar selt er til aðila sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi, enda sé öðru hvoru eftirtalinna skilyrða fullnægt:
a) Þjónustan sé nýtt að öllu leyti erlendis.
b) Kaupandi gæti – ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt – talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laganna. Í þessu tilviki þarf kaupandi að sýna fram á hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum með því að framvísa við seljanda vottorði frá til þess bærum yfirvöldum í heimalandi sínu þar sem fram kemur hvers konar starfsemi hann hefur með höndum.
Með orðalaginu ‘“sala undanþegin skattskyldri veltu“ er átt við að útskattur er ekki innheimtur af andvirði hins selda, en skráður seljandi hefur eftir sem áður rétt til endurgreiðslu innskatts af aðföngum við söluna. Viðskiptin bera með öðrum orðum núll-skatt.
Aðkeypt þjónusta vegna vörusýningar, þ.e. leiga sýningarsvæðis eða -bása og annarra lausa fjármuna, telst nýtt hér á landi og getur því ekki fallið undir a-lið. Í þessum tilvikum gæti undanþága hins vegar byggst á b-lið.
Framangreint undanþáguákvæði tekur ekki til m.a. vinnu við lausafjármuni og vöruflutninga hér á landi. Seljandi slíkrar þjónustu skal ávallt telja söluna til skattskyldrar veltu, einnig þótt selt sé erlendum aðila sem b-liður hér að framan tekur til. Erlendur kaupandi slíkrar þjónustu á ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af henni nema þjónustan sé veitt í tengslum við vöru sem hann vegna atvinnustarfsemi sinnar flytur síðar úr landi í eigin nafni, sbr. reglugerð nr. 247/l991, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkiskattstjóra
Ólafur Ólafsson.