Dagsetning                       Tilvísun
26. nóvember 1997                            829/97

 

Virðisaukaskattur – skilyrtur afsláttur – reikningsviðskipti

Vísað er til bréfs yðar, mótt. 9. september sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort heimilt sé að telja til innskatts bakfærðan afslátt á reikningsyfirliti.

Í bréfi yðar er reikningsviðskiptum yðar við viðkomandi verslun lýst svo:

„Á reikningum er færður 9% mánaðarafsláttur fast síðan sendur greiðsluseðill fyrir skuldinni í lok hvers mánaðar. Ef greitt er fyrir 10. hvers mánaðar er auka afsláttur 3% og fær maður hann strax við greiðslu og síðan senda kreditnótu með reikningum næsta mánaðar á eftir þannig að lækkun á innskatti og efniskaupum færist samkvæmt viðkomandi reikningi. En ef greitt er eftir 20. hvers mánaðar þá bakfærist 9% afslátturinn sem er á hverri nótu og greiðist þegar greiðsluseðillinn er greiddur en á næsta reikningsyfirliti kemur bakfærður afsláttur en enginn reikningur til að færa á löglegan hátt hækkun á innskatti og efniskaupum. Ég hef hingað til hringt og farið fram á að fá sendan reikning sem ég hef og fengið en þá er hann dagsettur ca. 2 dögum áður en ég fæ hann sendan en ekki með sömu dagsetningu og bakfærður afsláttur á reikningsyfirliti.“

Að lokum er síðan spurt hvort þér sé heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af bakfærðum afslætti á grundvelli reikningsyfirlits án þess að þér fáið sendan reikning vegna leiðréttingarinnar.

Ljóst er af bréfi yðar að svokallaður auka afsláttur (3%) er skilyrtur afsláttur sem seljanda er heimilt að draga frá skattskyldri veltu, sbr. 3. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þegar um er að ræða slíkan afslátt sem gefinn er eftir að afhending hefur átt sér stað þá ber seljanda að gefa út kreditreikning fyrir afslættinum með tilvísun til fyrri reiknings enda geti kaupandi dregið virðisaukaskattinn frá sem innskatt í uppgjöri sínu, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og skilyrði til að veita afslátt voru ekki fyrir hendi við afhendingu. Viðskiptaaðili yðar virðist því að þessu leyti fara rétt að við reikningsútgáfu.

Jafnframt er það álit ríkisskattstjóra að umræddur mánaðarafsláttur (9%) sé einnig skilyrtur afsláttur og beri því að fara með hann á sölureikningum sem slíkan. Viðskiptaaðila yðar bar því að gefa út sölureikning án þess að draga frá umræddan afslátt enda ekki ljóst við útgáfu reikningsins hvort skilyrðið kæmi fram eður ei. Ef hins vegar skilyrðið kemur fram, þ.e. ef kaupandi greiðir reikning vegna viðskipta síðasta mánaðar fyrir 20. næsta mánaðar þar á eftir, er seljanda heimilt að draga afsláttinn frá skattskyldri veltu að uppfylltum skilyrðum skv. 3. tölul. 5. mgr. 13. gr. laganna. Í þessum tilvikum ber því seljanda jafnframt að gefa út kreditreikning. Ekki er nægjanlegt að leiðrétta áður útgefna reikninga á reikningsyfirliti.

Að sama skapi er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt sem kemur fram á reikningsyfirlitum vegna leiðréttinga á áður útgefnum reikningum, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með áorðnum breytingum.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.