Dagsetning Tilvísun
6. sept. 1991 340/91
Virðisaukaskattur – skráning skógræktarbýla.
Ríkisskattstjóra hafa borist nokkar fyrirspurnir, m.a. frá skattstjórum, um hvort skráningarskylda skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt taki til aðila sem hafa með höndum skógrækt. Af þessu tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram eftirfarandi :
Eins og fram kemur í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 6. nóvember 1990, til allra skattstjóra, geta aðstæður aðila verið með þeim hætti að eðlilegt sé að skrá hann skv. 5. gr. vskl. þótt velta hans sé undir lágmarki skv. 3. tölul. 4. gr. laganna. Sömu ástæður geta réttlætt að aðili sé um nokkurn tíma á skrá þótt innskattur hans sé að staðaldri hærri en útskattur án þess að velta hans sé undanþegin skv. 12. gr. laganna. Í þessu sambandi eru nefnd nýstofnuð fyrirtæki sem þurfa að leggja í mikla fjárfestingu um lengri tíma áður en tekjur fara að skila sér, t.d. iðnaðarfyrirtæki og fiskeldisfyrirtæki.
Í III. hluta bréfs ríkisskattstjóra eru tilgreind nokkur atriði til viðmiðunar við mat þess hvort skráningarskylda sé fyrir hendi i framangreindum tilvikum. Meginskilyrðið er að ljóst þyki að um sé að ræða atvinnustarfsemi, þ.e. starfsemi sem miðar að rekstrarhagnaði eftir eðlilegan uppbyggingartíma. Skattstjóri verður að meta í einstökum tilvikum hvort þetta skilyrði og önnur, sem tilgreind eru í bréfinu, eigi við um aðila. Má þar m.a. hafa mið af því hvernig fjármögnun uppbyggingar fyrirtækisins er hagað, t.d. hvort lán hafi fengist til starfseminnar frá banka eða atvinnuvegasjóði.
Ríkisskattstjóri lítur svo á að meginefni þessara viðmiðunarreglna gildi um þá sem stunda skógrækt. Þó hefur komið í ljós að í virðisaukaskatti er sérstök ástæða er til að greina á milli þeirra sem rækta skóg með atvinnusjónarmið í huga og hinna sem stjórnast af öðrum hvötum. Því telur ríkisskattstjóri rétt að skráning verði að svo stöddu takmörkuð við þá sem hafa a.m.k. eitt undanfarandi ár haft tekjur umfram gjöld af skógrækt sinni, enda sé skattskyld sala umfram lágmark skv. 3. tölul. 4. gr. vskl.
Skógræktarbændur sem skráðir verða samkvæmt ofangreindu hafa rétt til innskatts vegna þess hluta kostnaðar við skógræktarframkvæmdir sem ekki fæst greiddur sem styrkur úr ríkissjóði.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.