Dagsetning                       Tilvísun
6. sept. 1991                             326/91

 

Virðisaukaskattur – sölukostnaður félagslegra íbúða.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. júlí sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort húsnæðisnefnd sveitarfélags beri að innheimta virðisaukaskatt af sölukostnaði sem hún tekur af kaupendum og seljendum félagslegra íbúða.

Í bréfinu kemur m.a. fram að húsnæðisnefnd úthlutar í umboði sveitarstjórnar öllum félagslegum íbúðum á vegum sveitarfélags. Á þessum íbúðum er kaupskylda og forkaupsréttur. Ákveðnar reglur eru um alla útreikninga, verðlagningu og meðferð íbúðanna. Íbúðirnar eru ekki á almennum fasteignamarkaði nema sveitarstjórn hafi gefið út yfirlýsingu um að niður séu fallnar allar kvaðir sem verið hafa á íbúðinni um forkaupsrétt og takmarkanir á ráðstöfunarrétti. Húsnæðisnefnd annast aðeins kaup og sölu á félagslegum íbúðum en starfar ekki á almennum fasteignamarkaði.

Í l. mgr. 60. gr. laga nr. 70/1990 um Húsnæðisstofnun ríkisins segir: „Sveitarfélag ber fjárhagslega ábyrgð á þeim umsýslukostnaði sem endursala íbúða hefur í för með sér. Er sveitarfélagi heimilt að áskilja sér allt að 1% álag af endursöluverði vegna eigendaskipta sem skiptist jafnt milli seljanda og kaupanda“.

Opinberum aðilum er aðeins skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð að því leyti sem þeir selja vörur eða virðisaukaskattsskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt.

Að áliti ríkisskattstjóra verður umsýsla húsnæðisnefnda vegna endursölu félagslegra íbúða, eins og henni er lýst í bréfi yðar, ekki talin vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Því lítur ríkisskattstjóri svo á að húsnæðisnefndum beri ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölukostnaði þessara íbúða.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.