Dagsetning                       Tilvísun
20. jan. 1993                            444/93

 

Virðisaukaskattur – sölureikningar

Með bréfi yðar, dags. 15. desember 1992, er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra hvort fyrirhuguð útskrift og innheimta sölureikninga frá R og H samrýmist ákvæðum VIII. kafla laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og II. kafla reglugerðar nr. 50/l989 um bókhald og tekjuskráningu.

Í bréfi yðar er núvervandi og fyrirhugaðri útgáfu sölureikninga lýst á svofelldan hátt:

„Hingað til hefur útgáfa sölureikninga verið aðskilin þannig að orkunotendur hafa fengið í hendur reikninga annarsvegar frá H og hinsvegar frá R. Afrit þessara reikninga í óslitinni númeraröð hefur verið til staðar í bókhaldi veitnanna.

Nú er fyrirhugað að sameina útgáfu þessara reikninga þannig að skrifaður verði út einn gíróseðill mánaðarlega á notandann fyrir annarsvegar notkun á rafmagni og hinsvegar fyrir notkun á heitu vatni.“

Í bréfi yðar segir eftirfarandi um form reikninga

„Á neðri hluta reikningsins mun koma fram útgáfudagur reiknings svo og annarsvegar sala frá H, vsk-númer veitunnar og kennitala ásamt nákvæmri sundurliðun á orkunotkun og álögðum virðisaukaskatti og hinsvegar sala frá R, vsk-númer og kennitala, ásamt sundurliðun á orkunotkun og álögðum virðisaukaskatti.

Gíróseðlarnir verða ekki fyrirfram númeraðir en þess í stað er fyrirhugað að tölvukerfi það sem skrifar út gíróreikningana númeri reikningana í óslitinni töluröð, annarsvegar vegna rafmagns og hinsvegar vegna heitavatnssölu, þ.e. að hver reikningur beri tvöfalt númerakerfi.“

Með vísan til bréfs yðar þykir ljóst að hér er um að ræða fyrirhugaða sameiginlega reikningaútgáfa tveggja virðisaukaskattsskyldra aðila. Að áliti ríkisskattstjóra samrýmist þetta ekki 20. gr. laga nr. 50/l988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum og 3. gr. reglugerðar nr. 50/l988 um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattskyldra aðila. Ennfremur skv. 20. gr. áðurnefndra laga og 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar er skylt að reikningar séu fyrirfram númeraðir í samfelldri töluröð. Að áliti ríkisskattstjóra fullnægir sú númering gíróseðla sem um ræðir í bréfi yðar ekki ákvæðum þeim sem fram eru settar í II. kafla reglugerðar um bókhald og tekjuskráningu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.