Dagsetning                       Tilvísun
11. febrúar 1992                            384/92

 

Virðisaukaskattur – söluskrifstofa erlends flugfélags.

Með bréfi yðar, dags. 28. október 1991, er óskað upplýsinga um það hvort erlent flugfélag, sem stundar áætlunarflug milli Íslands og annarra landa, fái endurgreiddan virðisaukaskatt af kostnaði við rekstur söluskrifstofu sinnar hér á landi. Vísað er til þess að íslensk flugfélög greiða ekki virðisaukaskatt á Norðurlöndum, þ.e. séu skráð samkvæmt virðisaukaskattslögum viðkomandi lands og fái innskatt endurgreiddan, og fylgir erindinu greinargerð hins erlenda flugfélags um þetta atriði.

Ríkisskattstjóri tekur fram að vegna undanþáguákvæðis 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. 1. tölul. 4. gr. laganna, eru flugfélög ekki skráningarskyld vegna fólksflutningastarfsemi sinnar. Óskráðir aðilar fá ekki endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum vegna starfsemi sinnar.

Í l. mgr. 6. gr. laga um virðisaukaskatt segir að fjármálaráðherra geti sett reglur um að fyrirtæki, er selja þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, geti farið fram á skráningu. Er hér um að ræða svonefnda frjálsa skráningu. Lagaheimild til reglugerðarsetningar um frjálsa skráningu hefur aðeins verið nýtt að því er varðar fasteignaleigu, sbr. II. kafla reglugerðar nr. 577/1989, og telur ríkisskattstjóri ekki fært að samþykkja frjálsa skráningu vegna fólksflutninga milli landa nema á grundvelli sambærilegra reglugerðarákvæða.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi í dag vakið athygli fjármálaráðuneytisins á máli yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón Guðmundsson.