Dagsetning Tilvísun
18. október 1996 757/96
Virðisaukaskattur – starfsemi billjarðstofu
Vísað er til bréfs yðar dags. 27. ágúst 1996, sem sent var skattstofunni í Reykjavík og framsent ríkisskattstjóra með bréfi dagsettu 25. september 1996.
Í bréfi yðar farið þér fram á, fyrir hönd umbjóðanda yðar, að innheimta virðisauka- skatts vegna útleigu á billjarðborðum verði felld niður frá 01.08. 1996, þar sem billard fékk inngöngu í Í þann 05.08. s.l. og þar með staðfestingu á því að um íþrótt sé að ræða. Í framhaldi af því verði skráningu umbjóðanda yðar breytt úr flokki 859-00 (skemmtanir ót.áður) í flokk 854-00 (íþróttastarfsemi og ungm.fél.).
Ríkisskattstjóri fellst á að ekki beri að innheimta virðisaukaskatt vegna leigu á aðstöðu til íþróttaiðkana, í þessu tilfelli billjarð, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 775/1994. Útleiga á billjarðborðum er hins vegar lausafjárleiga og er skattskyld.
Ljóst er að breyta þarf skráningu á virðisaukaskattsskrá en ekki í þá veru sem þér teljið rétt vera. Umbjóðandi yðar verður skráður í þann atvinnugreinaflokk sem vörusala hans segir til um, því sá hluti starfsemi hans er virðisaukaskattsskyldur eftir breytinguna.
Að lokum er yður bent á, að hafi umbjóðandi yðar talið til innskatts virðisaukaskatt af varanlegum rekstrarfjármunum vegna billjarðs ber honum að leiðrétta þann innskatt í samræmi við ákvæði VI. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, um leið og breyting á forsendum fyrir frádrætti á sér stað.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir
Afrit sent skattstofunni í Reykjavík.