Dagsetning                       Tilvísun
6. nóv. 1990                             163/90

 

Virðisaukaskattur – starfsemi flugfélags.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. júní 1990, þar sem m.a. kemur fram að verulegur hluti af starfsemi félagsins felist í flutningi farþega og farangurs til útlanda. Þeirri spurningu er beint til ríkisskattstjóra hvort félagið eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum vegna þessarar starfsemi. Jafnframt er spurt hvort virðisaukaskattur af aðföngum fáist endurgreiddur vegna leiguflugs innanlands.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

  1. Fólksflutningar, jafnt innanlands sem milli landa, eru utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Undanþágan hefur þau áhrif að sá sem hefur þessa undanþegnu starfsemi með höndum leggur ekki skatt á selda þjónustu, en hefur ekki rétt til endurgreiðslu innskatts af aðföngum til starfseminnar, sbr. 4. mgr. 2. gr.   Undanþágan tekur bæði til fólksflutninga í áætlunarferðum og leiguflugi. Sjúkraflug er undanþegið virðisaukaskatti með sama hætti.
  1. Önnur flugþjónusta en sú sem tilgreind er í lið 1 er virðisaukaskattsskyld. Innheimta ber og skila virðisaukaskatti af endurgjaldi fyrir annað leigu- eða þjónustuflug en með farþega, t.d. vegna mælinga eða vöruflutninga. Endurgjald fyrir vöruflutninga milli landa er þá undanþegið skattskyldri veltu. Flugfélag hefur rétt til endurgreiðslu innskatts vegna starfsemi skv. þessum lið.
  1. Aðili sem bæði hefur með höndum starfsemi skv. lið (fólksflutningar) og starfsemi skv. lið 2 (vöruflutningar o.fl.) verður að skipta virðisaukaskatti af aðföngum í innskatt (virðisaukaskatt sem fæst endurgreiddur) og virðisaukaskatt sem ekki er frádráttarbær. Vísast í leiðbeiningarit ríkisskattstjóra (RSK 11.15) um þær reglur sem gilda um þetta efni.

Í þessu sambandi skal tekið fram að sala og útleiga loftfara telst ekki. til skattskyldrar veltu hjá seljanda eða leigusala, þ.e. ber ekki virðisaukaskatt (útskatt). Sama gildir um viðgerðar- og viðhaldsvinnu við loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu. Þessar undanþágur ná ekki til einkaloftfara, heldur aðeins þeirra loftfara sem skráð eru sem atvinnuloftför í loftfaraskrá flugmálastjórnar, enda sé flugrekandi handhafi tilskilinna leyfa til atvinnuflugs (flugrekstrarleyfi, sbr. reglugerð nr. 381/1989).

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.