Dagsetning                       Tilvísun
6. nóv. 1990                            164/90

 

Virðisaukaskattur – starfsemi flugskóla.

Með bréfi yðar, dags. 5. júní 1990, er óskað álits ríkisskattstjóra á þessum atriðum:

  1. Hvort virðisaukaskattur af aðföngum vegna flugkennslu fáist endurgreiddur.
  1. Hvernig sé með virðisaukaskatt af öðru flugi en kennsluflugi, svo og leigu á flugvélum án flugmanns.
  1. Hvort flugmenn hjá félaginu, sem eru sjálfstæðir verktakar, eigi að innheimta virðisaukaskatt af starfsemi sinni.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Um 1:

Flugkennsla er utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Undanþágan hefur þau áhrif að sá sem hefur þessa undanþegnu starfsemi með höndum leggur ekki skatt á selda þjónustu, en hefur ekki rétt til endurgreiðslu innskatts af aðföngum til starfseminnar, sbr. 4. mgr. 2. gr.

Um 2:

Innheimta ber og skila virðisaukaskatti af endurgjaldi fyrir annað leigu- eða þjónustuflug en með farþega, t.d. vegna mælinga eða vöruflutninga. Endurgjald fyrir vöruflutninga milli landa telst þó ekki til skattskyldrar veltu.

Útleiga loftfara telst ekki til skattskyldrar veltu hjá seljanda eða leigusala, þ.e. ber ekki útskatt. Þessi undanþága tekur þó ekki til einkaloftfara, heldur aðeins þeirra loftfara sem skráð eru sem atvinnuloftför í loft

faraskrá flugmálastjórnar, enda sé flugrekandi (leigutaki) handhafi tilskilinna leyfa til atvinnuflugs (flugrekstrarleyfi, sbr. reglugerð nr. 381/1989).

Um 3:

Flugmenn sem eru sjálfstæðir verktakar eiga að áliti ríkisskattstjóra að innheimta og skila virðisaukaskatti af endurgjaldi fyrir starfsemi sína, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.