Dagsetning                       Tilvísun
11. júní 1991                             276/91

 

Virðisaukaskattur – sýningarskrá listahátíðar.

Með bréfi yðar, dags. 22. apríl sl., er farið fram á niðurfellingu virðisaukaskatts af sölu auglýsinga í sýningarskrá Listahátíðar í H 1991 og af sölu skrárinnar.

Til svars erindinu skal tekið fram að hver sá sem hefur einhvers konar auglýsingastarfsemi, svo sem auglýsingabirtingu, með höndum í atvinnuskyni skal innheimta og skila virðisaukaskatti af andvirði þjónustu sinnar. Sama gildir um leikhús, tónleikahaldara, söfn o.fl. sem gefa út og selja leikskrár, sýningarskrár o.s.frv. í atvinnuskyni. Þó er starfsemin ekki skráningarskyld ef samanlagðar tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þ.m.t. tekjur af auglýsingum og sölu ritsins, eru lægri en 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1991).

Við mat þess hvort framangreind starfsemi sé í atvinnuskyni er aðallega miðað við það hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri eða ekki. Útgáfa sýningarskrár o.s.frv. telst ekki vera í atvinnuskyni ef samanlagðar auglýsingatekjur og tekjur af sölu eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar, þ.m.t. prentkostnaður. Gefi aðili út fleiri en eitt rit er miðað við heildarafkomu þeirra allra.

Tekið skal fram að sala sýningarskráa fellur að áliti ríkisskattstjóra ekki undir það undanþáguákvæði 12. gr. virðisaukaskattslaga sem kveður á um að sala bóka á íslenskri tungu sé undanþegin skattskyldri veltu.

Samkvæmt framansögðu ber yður að innheimta og skila virðisaukaskatti af auglýsingatekjum og söluandvirði sýningarskrárinnar ef (a) þessar tekjur eru hærri en sá virðisaukaskattsskyldi kostnaður sem leiðir af útgáfu hennar og (b) ljóst er að tekjurnar nemi a.m.k. 172.300 kr. Að öðrum kosti eruð þér undanþeginn virðisaukaskattsskyldu vegna þessarar útgáfu.

Ríkisskattstjóri hefur ekki lagaheimild til að veita sárstakar undanþágur frá skattskyldu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.