Dagsetning                       Tilvísun
03.03.2004                              02/04

 

Virðisaukaskattur – táknmálstúlkar

Ríkisskattstjóri hefur móttekið fyrirspurn yðar sem barst með tölvupósti þann 18. nóvember 2003. Í fyrirspurninni kemur fram að þér hafið rekið túlkaþjónustu undanfarin ár og á þeim tíma staðið í þeirri trú að túlka og þýðingarvinna sé undanþegin virðisaukaskatti. Nýlega hafið þér fengið þær upplýsingar að hluti af túlkaþjónustu sé skattskyldur. Fram kemur að nánast undantekningarlaust séu greiðendur fyrir táknmálstúlkaþjónustu opinberar stofnanir. Loks er óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

„1. Hvaða táknmálstúlkun er nákvæmlega undanþegin VSK? Hægt er að túlka hugtakið „félagsleg túlkun“ nokkuð vítt. Í raun er hægt að segja að öll táknmálstúlkun sé félagsleg túlkun.
2. Er skólatúlkun skattskyld, leikskólastig til háskólastigs?
3. Á ekki Samskiptamiðstöð heyrnarlausra einnig að greiða VSK?
4. Er ekki eðlilegt að ég byrji að innheimta VSK hjá viðskiptavinum mínum á sama tíma og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra?

Að lokum ætla ég að telja upp þá staði og aðstæður sem við helst túlkum við:
Skólar (öll skólastigin), Alþingi, foreldrafundir í leikskólum- og grunnskólum, kirkjur, dómssalir, starfsmannafundir, heilbrigðisstofnanir, sálfræðingar, leikhús, ráðstefnur, félagsþjónusta og barnaverndarnefnd, námskeið“

Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:

Í bréfum ríkisskattstjóra, dags. 25. febrúar 2004 (tilv. G-ákv. 1049/04) og 7. maí 1990 (tilv. 63/90), kemur fram að táknmálstúlkun er almennt virðisaukaskattsskyld en hún getur hins vegar verið undanþegin virðisaukaskatti sé hún veitt í tengslum við heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu og almenna skólakerfið. Til svars við liðum 1 og 2 í fyrirspurn yðar er vísað í umrætt bréf frá 25. febrúar sl. en það, sem og bréfið frá 1990, fylgir hjálagt.

Í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (vsk-lög), sbr. 3. gr., eru hvorki einstakir menn né lögpersónur undanþegnar virðisaukaskatti, heldur ræðst virðisaukaskattsskylda annars vegar af eðli starfsemi og hins vegar af því hvort seldur varningur eða veitt þjónusta er innan skattsskyldusviðs virðisaukaskatts. Í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. vsk-laga er sett fram sú meginregla að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli á þeim sem í atvinnuskyni selja vörur eða inna af hendi þjónustu. Skv. 4. tölul. sömu málsgreinar hvílir virðisaukaskattsskylda á ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra að því leyti sem þeir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Skv. 1. mgr. 5. gr. vsk-laga skal hver sá, sem er virðisaukaskattsskyldur, ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann er heimilisfastur. Eigi skal skrá aðila ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, sbr. 5. mgr. 5. gr. Virðisaukaskattsskylda yðar ræðst af 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. vsk-laga. Virðisaukaskattsskylda Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra ræðst hins vegar af 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Vegna liða 3 og 4 í fyrirspurn yðar skal tekið fram að hverjum og einum gjaldanda ber að haga skattskilum sínum í samræmi við lög. Ef raunin er sú að skattskil eins gjaldanda eru ekki í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli þá skapar það ekki öðrum gjaldanda rétt til að haga skattskilum sínum með sama hætti.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Guðrún Þorleifsdóttir

Guðlaug M. Valdemarsdóttir