Dagsetning Tilvísun
22. júní 1992 412/92
Virðisaukaskattur – tap á keyptum viðskiptakröfum.
Með bréfi yðar, dags.17. september 1991, er óskað álits ríkisskattstjóra á eftirfarandi:
- Hvort 4. mgr.12. gr. laga um virðisaukaskatt taki til þess þegar félag yfirtekur rekstur annars félags með því að kaupa vélar, birgðir og viðskiptakröfur, og bæði félögin eru með skráningarskyldan rekstur samkvæmt lögum um virðisaukaskatt?
Svar: Það er álit ríkisskattstjóra að 4. mgr. 12. gr. taki til þeirra viðskipta sem hér er lýst.
- Hvernig skuli með fara ef yfirteknar (keyptar) viðskiptakröfur reynist tapaðar, þ.e. hvort 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt gildi fyrir það félag sem yfirtekur (kaupir) kröfurnar? Skiptir máli hvort viðskiptakröfurnar eru keyptar einar sér, án þess að rekstur sé yfirtekinn?
Svar: Ríkisskattstjóri lítur svo á að nýr eigandi fyrirtækis eða hluta þess, sem m.a. kaupir í því sambandi útistandandi viðskiptakröfur fyrirtækisins á nafnverði, geti talið til frádráttar skattskyldri veltu 80,32 % af viðskiptakröfum sem sannanlega tapast eftir að kaupin áttu sér stað, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu fyrri eiganda, sbr. 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. vskl. Nýr eigandi er jafnframt skyldur til að telja viðskiptaskuld, sem varðar reksturinn og fyrri eigandi hefur afskrifað en fæst síðar greidd, til skattskyldrar veltu á því tímabili þegar hún fæst greidd. Ríkisskattstjóri fær á hinn bóginn ekki séð að heimilt sé að telja tapaðar kröfur til frádráttar skattskyldri veltu þegar þær hafa verið keyptar án tengsla við yfirtöku á rekstri.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.