Dagsetning Tilvísun
23. júní 1995 689/95
Virðisaukaskattur – þjónusta sálfræðinga.
Vísað er til svars yðar við fyrirspurn ríkisskattstjóra, mótteknu 25. apríl 1995, þar sem fjallað er almennt um í hverju starf sálfræðinga er fólgið. Fyrirspurn þessari var beint til yðar þar sem kanna þurfti sérstaklega hvort umrædd starfsemi væri virðisaukaskattsskyld eða ekki en því hefur verið haldið fram að sú starfsemi væri undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Til að falla undir undanþáguákvæði um heilbrigðisþjónustu í 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hefur starfsemi, að mati ríkisskattstjóra þurft að uppfylla tvö skilyrði, þ.e.a.s. að (1) um sé að ræða þjónustu sem falli undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál, og (2) að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.
Þrátt fyrir að þjónusta sálfræðinga uppfylli ekki ofangreind skilyrði er ljóst af svari yðar við fyrirspurn ríkisskattstjóra að starfsemi þeirra er að mestu leyti á sviðum heilbrigðis-, félags- og fræðslumála sem eru undanþegin virðisaukaskatti skv. 1., 2. og 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Rétt þykir að fjalla nánar um starfssvið sálfræðinga.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1976, um sálfræðinga, hafa þeir einir rétt til að kalla sig sálfræðinga sem til þess hafa fengið leyfi menntamálaráðuneytisins. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga eru sérsvið sálfræðinnar fjögur, þ.e. klínísk sálfræði, fötlunarsálfræði, uppeldissálfræði og félags- og skipulagssálfræði.
Telja verður að starf þeirra sálfræðinga sem hafa klíníska sálfræði sem sérsvið sé að einhverju leyti svipað og starf geðlækna enda starfsþjálfun þeirra að mestu leyti fólgin í starfi á deildum eða stofnunum sem fást við geðræn vandamál eða geðsjúkdóma. Það skal tekið fram að starfsemi geðlækna er undanþegin virðisaukaskatti sem heilbrigðisþjónusta. Í þessu sambandi skal jafnframt tekið fram að leitað skal umsagnar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins áður en sérfræðileyfi í klínískri sálfræði er veitt.
Hvað varðar þá sálfræðinga sem hafa fötlunarsálfræði sem sérsvið þá er starfsþjálfun þeirra að mestu fólgin í starfi á greiningardeildum og/eða stofnunum fyrir fatlaða. Málefni fatlaðra heyra undir þrjú ráðuneyti, þ.e. heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og félagsmála-ráðuneyti. Hvort sem talið væri að umrædd starfsemi sálfræðinga félli undir félagslega þjónustu eða heilbrigðisþjónustu væri hún undanþegin virðisaukaskattsskyldu en svo virðist að þeir sálfræðingar sem hafa fötlunarsálfræði sem sérsvið starfi innan þeirra stofnana sem falla undir undanþáguákvæði virðisaukaskattslaga.
Þeir sérfræðingar sem hafa uppeldissálfræði sem sérsvið þurfa að hafa hlotið starfsþjálfun við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu fræðsluskrifstofu, í skólum eða á uppeldis- eða meðferðar-stofnunum fyrir börn og/eða unglinga. Ljóst er að sú starfsemi sem fer fram á þeim stofnunum sem starfsþjálfun fer fram á er undanþegin virðisaukaskatti annað hvort sem starfsemi skóla eða félagsleg þjónusta.
Þeir sálfræðingar sem hafa félags- og skipulagssálfræði sem sérsvið hafa hlotið starfsþjálfun sína á stofnunum eða fyrirtækjum á sviði stjórnunar og skipulagningar.
Í bréfi yðar kemur fram að störf sálfræðinga séu aðallega fólgin í greiningu sálrænna og sállíkamlegra sjúkdóma, svo og geðrænna, tilfinningalegra og félagslegra erfiðleika fólks og meðferð og ráðgjöf í framhaldi af því. Enn fremur segir í bréfi yðar að sálfræðingar séu hluti af stærri samstarfshóp þar sem eru læknar, hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfarar, sjúkraþjálfarar o.fl. svo sem á sjúkrahúsum, endurhæfingardeildum, greiningarstöðvum o.þ.h. og vinni því sálfræðingar iðulega með sömu skjólstæðinga og aðrar heilbrigðisstéttir.
Af því sem að framan er rakið er það álit ríkisskattstjóra að starfsemi þeirra sálfræðinga sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðing skv. reglugerð nr. 158/1990 sé ekki virðisauka-skattsskyld þar sem hún telst sambærileg þeirri starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 1., 2. eða 3. tölulið 3. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta eða starfsemi skóla og skiptir þá ekki máli hvort þeir starfa innan opinberra stofnanna eða annars staðar.
Áðurnefnd fyrirspurn laut einnig að því hvort sálfræðingar hefðu með höndum námskeið eða fyrirtækjaráðgjöf og þá jafnframt í hverju slík námskeið eða ráðgjöf væru fólgin.
Í svari yðar kemur fram að margir sálfræðingar haldi námskeið fyrir starfshópa, þar sem tekið er mið af að veita, viðhalda eða auka þekkingu vegna atvinnu viðkomandi. Jafnframt segir að sálfræðingar standi fyrir námskeiðum sem lið í meðferð skjólstæðinga, svo sem kvíðastjórnun, stýringu á neyslu áfengis, sjálfsstyrkingu, samskiptaþjálfun o.fl.
Undanþáguákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga tekur til reksturs skóla og menntastofnana. Í athugasemdum við frumvarp til virðisaukaskattslaga kemur fram að til reksturs skóla og menntastofnana teljist öll venjuleg skóla- og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi. Jafnframt kemur fram að við mat á því hvort nám teljist skattfrjálst er eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin t.d. unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber samkvæmt framansögðu að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu undanþegin virðisaukaskatti.
Af bréfi yðar er ekki ljóst af hvaða toga þau námskeið eru sem sálfræðingar halda og því ekki hægt að segja til um hvort þau eru skattfrjáls eða ekki en ef framangreind skilyrði eiga við slík námskeið þá ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af námskeiðsgjöldum.
Hvað varðar aftur á móti svokölluð námskeið sem haldin eru sem liður í meðferð skjólstæðinga, þ.e. þegar um er að ræða eins konar hópmeðferð þá verður að telja að slík meðferð þó hún sé í formi námskeiðs sé undanþegin á sama grundvelli og þegar sálfræðingur hefur einn skjólstæðing til meðferðar. Samkvæmt framansögðu skiptir því ekki máli með tilliti til virðisaukaskatts hvort sálfræðingur hefur til meðferðar einn skjólstæðing í einu eða hóp skjólstæðinga.
Í fyrirspurn ríkisskattstjóra var einnig spurt hvort sálfræðingar hefðu með höndum ráðgjöf til fyrirtækja. Í svarbréfi yðar kemur fram að reikna megi með því að einstakir sálfræðingar hafi með höndum, ásamt öðrum störfum, ýmis konar fyrirtækjaráðgjöf þótt oftast sé erfitt að greina á milli þeirrar ráðgjafar og svo annarrar fræðslu eða ráðgjafar sálfræðinga. Er það álit ríkisskattstjóra að ekki sé teljandi munur á slíkri ráðgjöf og annarri meðferð eða ráðgjöf sálfræðinga gagnvart skjólstæðingum sínum ef hún er til handa starfsmönnum einstakra fyrirtækja þótt slík ráðgjöf eða meðferð sé í formi námskeiðs. Hins vegar er bein ráðgjöf til fyrirtækja eða stofnana, þ.e. ópersónubundin ráðgjöf varðandi atriði er tengjast rekstri stofnunar eða fyrirtækis, virðisaukaskattsskyld enda hvorki um að ræða námskeið í hefðbundinni merkingu þess orðs né meðferð eða ráðgjöf gagnvart einstökum skjólstæðingum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.