Dagsetning Tilvísun
15. september 1992 422/92
Virðisaukaskattur – Þóknun sem greidd er vegna söfnunarkassa.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. júní sl., þar sem farið er fram á að embætti ríkisskattstjóra skeri úr um hvort þóknun sem R greiðir til sölustaða söfnunarkassa R sé undanþegin virðisaukaskatti eða ekki.
Samkvæmt bréfinu er sú þóknun sem um ræðir vegna eftirfarandi þjónustu:
a) sölu á smámynt, en hver sölustaður þarf að hafa skiptimyntasjóð til reiðu þar sem það er forsenda fyrir því að fólk geti spilað í kössunum.
b) greiðsla á vinningum sem eru undir 10 þúsund krónum, í þeim tilvikum sem kassarnir prenta út vinningsmiða.
c) láta vita ef söfnunarkassarnir bila.
Happdrætti og getraunastarfsemi eru undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 11. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Söfnunarkassar (spilakassar) R eru taldir happdrætti í þessu sambandi. Undanþágan tekur einnig til þess hluta starfseminnar sem felst í afhendingu vinninga o.þ.h. þjónustu söluaðila eða umboðsmanna R, þ.e. söluþóknunar enda er um sambærilega þjónustu að ræða og umboðsmenn happdrætta veita. Söluaðilar (umboðsmenn) innheimta því ekki virðisaukaskatt vegna framangreindrar þjónustu af R þar sem slík þjónusta telst vera nauðsynlegur þáttur í starfrækslu söfnunarkassa.
Undanþágan tekur þó ekki til virðisaukaskatts vegna kaupa á skattskyldri vöru og þjónustu vegna söfnunarkassanna. Dæmi um slíkar vörur og þjónustu má nefna:
a) Kaup (innflutning) söfnunarkassa.
b) Viðgerðir og varahlutir vegna söfnunarkassa.
c) Umsjón með söfnunarkössum sem verktakar hafa með höndum, t.d. losun p eninga, smáviðgerðir og uppgjör.
Seljandi hinnar skattskyldu vöru eða þjónustu skal innheimta virðisaukaskatt svo fremi sem hann hafi samtals skattskylda veltu hærri en 183.000 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1992).
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.