Dagsetning                       Tilvísun
6. nóv. 1990                             161/90

 

Virðisaukaskattur – þýðingar.

Með bréfi yðar, dags. 9. maí 1990, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort þýðing á námsefni sem notað verður á námskeiðum fyrir starfsfólk í þremur sjávarútvegsfyrirtækjum sé virðisaukaskattsskyld starfsemi. Fram kemur að námsefni þetta er almenns eðlis og fjallar um verklag starfsmanna. Nemendum verður afhent námsefnið endurgjaldslaust.

Þýðingarstarfsemi er almennt skattskyld starfsemi, hvort sem þýðing er seld til birtingar í fjölmiðlum eða ekki. Hér má t.d. nefna þýðingu leiðbeiningarrita um meðferð söluvöru, auglýsingatexta, fagrita, tæknilegs og vísindalegs texta, þar sem fyrst og fremst er krafist nákvæmni í þýðingu (og þekkingar á efninu) á kostnað hins listræna frelsis. Starfsemi löggiltra skjalaþýðenda er einnig skattskyld. Að áliti ríkisskattstjóra verður að telja að það þýðingarverkefni sem getið er um í bréfi yðar sé skattskyld starfsemi samkvæmt framansögðu.

Þess skal getið að ríkisskattstjóri telur þýðingu bókmenntaverks, sem þýðandi selur til birtingar í fjölmiðli (bók, tímariti, hljóðvarpi, sjónvarpi o.s.frv.), undanþegna virðisaukaskatti. Hér er um að ræða hugverk (eigið framlag) þýðanda sem er að áliti ríkisskattstjóra sambærilegt verkum rithöfunda og tónskálda, sbr. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna, enda verður að telja að þýðandi geti í við þýðingu bókmenntaverka leyft sér visst listrænt frelsi gagnvart hinum upphaflega texta. Þannig er þýðing á verkum erlendra rithöfunda undanþegin virðisaukaskatti og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða fagurbókmenntir eða einhvern annan flokk bókmennta.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.