Dagsetning Tilvísun
17. ágúst 1990 126/1990
Virðisaukaskattur – þýðingar o.fl.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. mars 1990, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort ýmis verkefni sem þér fáist við séu virðisaukaskattsskyld.
Miðað við lýsingu í bréfi yðar er sum starfsemi yðar undanþegin virðisaukaskatti en önnur skattskyld. Verður hér á eftir vikið að einstökum atriðum fyrirspurnarinnar:
I.
Spurt er um virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir flutning fyrirlestra um íslendingasögur, sögustaði þeirra og íslenska þjóðsagnahefð á námskeiði fyrir leiðsögumenn. Námskeið þetta mun vera skilyrði fyrir starfsréttindum leiðsögumanna.
Þessi starfsemi er undanþegin skattskyldu skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, en það ákvæði er túlkað þannig af ríkisskattstjóra að það nái m.a. til faglegrar menntunar og endurmenntunar í sambandi við atvinnu manna. Undanþáguákvæðið tekur bæði til námskeiðshaldara og einstakra fyrirlesara sem starfa sem verktakar við kennslu.
II.
Flutningur erinda í útvarp gegn gjaldi er ekki virðisaukaskattsskyld starfsemi.
Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti skv. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Þetta undanþáguákvæði tekur almennt til höfunda og flytjenda efnis m.a. í útvarpi og sjónvarpi. Ákvæðið tekur hins vegar ekki til verktakaþóknunar fyrir t.d. dagskrárgerð.
III.
Þýðingarstarfsemi er almennt skattskyld starfsemi, hvort sem þýðing er seld til birtingar í fjölmiðlum eða ekki. Hér má t.d. nefna þýðingu leiðbeiningarrita um meðferð söluvöru, auglýsingatexta, fagrita, tæknilegs og vísindalegs texta, þar sem fyrst og fremst er krafist nákvæmni í þýðingu (og þekkingar á efninu) á kostnað hins listræna frelsis. Starfsemi löggiltra skjalaþýðenda er einnig skattskyld.
Í bréfi yðar er getið eftirfarandi þýðingarverkefna sem telja verður skattskylda starfsemi samkvæmt framansögðu:
– Framsöguerindi í pallborðsumræðum.
– Kynningarrit um finnska sögu og stjórnmálaviðhorf.
– Sýningarskrár vegna listasýninga o.þ.h.
– Kynningargreinar um listamenn og listsýningar.
– Bæklingur með reglum um bifreiðaeftirlit.
– Námsefni á starfsnámskeiði bifreiðaskoðunarmanna.
– Bæklingur um meðferð, stillingar og viðhald tækja við bifreiðaskoðun.
– Leiðarvísir um meðferð og stillingu vökvakerfa.
Þess skal getið að ríkisskattstjóri telur þýðingu bókmenntaverks, sem þýðandi selur til birtingar í fjölmiðli (bók, tímariti, hljóðvarpi, sjónvarpi o.s.frv.), undanþegna virðisaukaskatti. Hér er um að ræða hugverk (eigið framlag) þýðanda sem er að áliti ríkisskattstjóra sambærilegt verkum rithöfunda og tónskálda, sbr. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr laganna, enda verður að telja að þýðandi geti í við þýðingu bókmenntaverka leyft sér visst listrænt frelsi gagnvart hinum upphaflega texta. Þannig er þýðing á verkum erlendra rithöfunda undanþegin virðisaukaskatti og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða fagurbókmenntir eða einhvern annan flokk bókmennta.
IV.
Atvinnustarfsemi sem felst í því að búa rit annarra manna undir prentun er virðisaukaskattsskyld útgáfuþjónusta. Einnig er prófarkalestur, ritvinnsla o.s.frv. sem seld er í atvinnuskyni virðisaukaskattsskyld starfsemi, nema um sé að ræða þess háttar vinnu vegna undanþeginna eigin ritstarfa viðkomandi.
Öll vinna við bókargerð, sem ekki er sérstaklega undanþegin virðisaukaskatti, er skattskyld – einnig eftir að sala bóka á íslenskri tungu verður undanþegin skattskyldri veltu („núll-sköttuð“) frá og með 1. september nk.
V.
Undanþágur frá virðisaukaskattsskyldu, sem byggjast á 3. mgr. 2. gr. laganna, ná ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi. Þetta veldur því að þér verðið að skipta virðisaukaskatti sem þér greiðið við kaup á aðföngum í innskatt (vegna kaupa á aðföngum til skattskyldrar starfsemi) og ófrádráttarbæran virðisaukaskatt (vegna kaupa aðfanga til undanþeginnar starfsemi). Sjá nánar um þetta leiðbeiningarit ríkisskattstjóra, útg. í desember sl., bls. 31 og áfram.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.