Dagsetning Tilvísun
11. okt. 1990 146/90
Virðisaukaskattur – tímarit.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 21. mars 1990 Í bréfinu er gerð grein fyrir útgáfu Starfsmannafélags ríkisstofnana á „Félagstíðindum SFR“, fréttablaði fyrir félagsmenn SFR, og óskað upplýsinga um virðisaukaskatt þar að lútandi. Fram kemur að blaðið er sent félagsmönnum án sérstaks endurgjalds og ekki eru birtar auglýsingar í því gegn gjaldi.
Um almenn atriði varðandi útgáfustarfsemi félagasamtaka vísast til meðfylgjandi bréfs ríkisskattstjóra frá 16. mars 1990. Í lið B-2 kemur fram sú almenna regla að varanleg og regluleg útgáfa á vegum félagasamtaka er ekki skráningarskyld nema hagnaður sé af útgáfunni, þ.e. þegar tekjur af áskrift og auglýsingar eru hærri en kostnaður við útgáfu. Þó þarf að taka tillit til aðstæðna í einstökum tilvikum, einkum þegar ritum er dreift til félagsmanna gegn greiðslu félagsgjalds, en án sérstaks endurgjalds að öðru leyti. Skráningarskylda er þá talin vera fyrir hendi þegar ljóst er að um markaðsvöru er að ræða. Útgáfustarfsemin er hins vegar undanþegin skráningarskyldu þegar tilgangur útgáfunnar er fyrst og fremst að fullnægja innri þörf félagsins (fréttir af félagsstarfi o.s.frv.). Við mat þess hvort tiltekin útgáfa sé „markaðsvara“ er m.a. litið til þess hvort atvinnufyrirtæki hafi sambærilega útgáfustarfsemi með höndum, hvort aðrir en félagsmenn séu einnig áskrifendur að ritinu, hversu umfangsmikill þáttur útgáfustarfsemin er í heildarstarfsemi félagsins og – ef félagið er opið almenningi – hvort líklegt þyki að menn gangi í félagið gagngert i því skyni að fá áskrift að ritinu.
Að áliti ríkisskattstjóra getur útgáfa Félagstíðinda SFR ekki talist skráningarskyld starfsemi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Útgáfa blaðsins virðist þáttur í almennri starfsemi félagsins og án markaðsgildis eins og það hugtak er notað hér að framan.
Um meðferð virðisaukaskatts af útgáfunni vísast til liðar C-2 í bréfi ríkisskattstjóra frá 16. mars 1990.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.