Dagsetning Tilvísun
20.01.2006 02/06
Virðisaukaskattur – tónlistarhús – styrkveiting – innskattur
Ríkisskattstjóri móttók þann 12. janúar 2006 erindi yðar sem dagsett er 9. janúar 2006. Í erindinu er óskað staðfestingar á ákveðnum skilningi á ákvæðum virðisaukaskattslaga vegna þeirra aðstæðna og að gefnum þeim forsendum sem reifaðar eru í bréfinu. Í stuttu máli er annars vegar óskað staðfestingar á því að móttekinn styrkur frá opinberum aðilum teljist ekki til virðisaukaskattsskyldrar veltu móttakanda og því beri ekki að innheimta virðisaukaskatt af honum. Hins vegar er, að því gefnu að sá skilningur verði staðfestur að styrkveitingin beri ekki virðisaukaskatt, óskað eftir staðfestingu þess að þrátt fyrir að ekki beri að innheimta virðisaukaskatt af mótteknum styrk teljist móttaka hans ekki til undanþeginnar starfsemi í skilningi 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og leiði þar með ekki til þess að móttakandi teljist vera í blandaðri starfsemi í skilningi 3., 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.
Í erindinu kemur eftirfarandi fram um málavexti og ályktanir fyrirspyrjanda:
„1 Undanþága frá virðisaukaskatti
Málsatvik eru þau að verið er að ganga til samninga við íslenskan lögaðila um byggingu tónlistarhúss við Austurhöfn í Reykjavík. Sá aðili sem mun byggja húsið og eiga það mun reka tónlistarstarfsemi í húsinu næstu 35 árin. Mánaðarlega á þeim tíma mun byggingar og rekstraraðilinn fá styrk í formi reiðufjár, sem er veittur af einkahlutafélaginu Austurhöfn-TR ehf., en félagið er í eigu Reykjavíkurborgar (46%) og íslenska ríkisins (54%). Hvorki styrkveitanda, þ.e. Austurhöfn-TR ehf., né Reykjavíkurborg eða íslenska ríkinu, verður veitt nein sérstök þjónusta á móti. Styrkveitendur sjálfir þiggja því ekki endurgjald á móti hinum veitta styrk. Hins vegar tekst móttakandi styrksins í fyrirhuguðum samningi aðila á hendur ákveðnar skyldur gegn veitingu styrksins, sem felast í því að tónlistar- og menningarstarfsemi verði í raun rekin í húsnæðinu. Tónlistar- og menningarstarfsemin mun verða skilgreind á sem víðastan hátt en til þess að tryggja að slík starfsemi fari í raun fram í húsinu er gert ráð fyrir ákveðnum vanefndaúrræðum sem felast annars vegar í tímabundnu inngripi (step-in) Austurhafnar-TR ehf. í starfsemina til að tryggja framgang hennar og hins vegar í riftun samnings og niðurfellingu styrksins ef mikil vanhöld eru á því að slík starfsemi sé þar rekin. Rétt er að taka sérstaklega fram að engin sérstök skilyrði verða sett um þá þjónustu sem veitt skal eða um afslætti eða aðrar ívilnanir fyrir styrkveitendur heldur felast skilyrðin í því að ákveðin starfsemi verði rekin í húsnæðinu í samræmi við almenn menningar- og tónlistarleg markmið styrkveitenda.
Með vísan til þeirrar lýsingar sem gefin hefur verið er óskað eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á því að móttakanda styrksins beri ekki að innheimta og skila virðisaukaskatti af styrknum, þar sem ekki sé um að ræða sölu til handa styrkveitanda á virðisaukaskattskyldri vinnu eða þjónustu í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
2 Blönduð starfsemi
Allar aðrar tekjur styrkþegans verða með virðisaukaskatti og munu að stærstum hluta samanstanda af tekjum af aðstöðuleigu vegna tónlistarviðburða svo sem tónleikahalds. Slík aðstöðuleiga telst almennt til virðisaukaskattskyldrar starfsemi. Í áætlunum er gert ráð fyrir að um það bil 60% af heildartekjum verði í formi styrksins en um það bil 40% verði aðrar tekjur er falli undir virðisaukaskattskylda þjónustu í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Rétt er að taka sérstaklega fram að í bréfi þessu er ekki óskað eftir afstöðu embættis ríkisskattstjóra til almenns réttar til skráningar að teknu tilliti til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda liggur ekki endanlega fyrir hvort skilyrðum til skráningar samkvæmt því ákvæði verður fullnægt. Vegna þessa er í beiðni þessari gert ráð fyrir að öll sala styrkþegans falli undir virðisaukaskattskylda starfsemi og við það miðað í forsendum undirritaðra.
Að þeirri niðurstöðu gefinni að móttaka á styrknum án sérstaks endurgjalds feli ekki í sér virðisaukaskattskylda sölu á vörum eða þjónustu og að öll sala félagsins á þjónustu eða aðstöðu falli undir virðisaukaskattskylda þjónustu er um að ræða félag sem rekur enga undanþegna starfsemi í skilningi 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, heldur selur alla sína þjónustu með virðisaukaskatti. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, skilgreinir blandaða starfsemi sem starfsemi sem er að hluta virðisaukaskattsskyld en að hluta undanþegin skattskyldu, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Aðilum með blandaða starfsemi ber skylda til að hlutfalla innskatt sinn samkvæmt því sem fram kemur í 4. og 5. gr. sömu reglugerðar.
Styrkþeginn í því máli sem hér um ræðir hefur hins vegar einungis með höndum virðisaukaskattskylda sölu á þjónustu, en rekur enga undanþegna starfsemi sem getur falið í sér að um sé að ræða blandaða starfsemi. Undirritaðir telja því að hinn veitti styrkur gefi ekki tilefni til þess að styrkþegi og rekstraraðili tónlistarhússins skuli hlutfalla innskatt sinn þar sem þetta framangreint felur í sér að einungis geti verið um að ræða virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 59/1988, um virðisaukaskatt.
Þessi niðurstaða á sér m.a. stoð í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 98/892, dags. 30. nóvember, varðandi skattalega meðferð styrkja og innskattsfrádrátt. Í bréfinu kemur fram varðandi innskattsfrádráttinn að “heimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eru eingöngu notuð til rannsókna í þeim hluta starfseminnar sem er skattskyldur og gildir þá einu hvort styrkir til slíkra rannsókna eru gegn endurgjaldi eða ekki”. Móttaka á styrk sem ekki taldist bera virðisaukaskatt var því ekki talinn skerða á nokkurn hátt heimild til innsköttunar.
Með vísan til framanritaðs og að gefnum þeim forsendum sem fram koma í bréfi þessu og lýst hefur verið að framan er því farið fram á það við ríkisskattstjóra að staðfest verði að þrátt fyrir að ekki beri að innheimta virðisaukaskatt af mótteknum styrk, teljist móttaka styrksins ekki til undanþeginnar starfsemi í skilningi 3. mgr. 2. gr. laga nr. 59/1988, um virðisaukaskatt og leiði þar með ekki til þess að móttakandi teljist vera í blandaðri starfsemi í skilningi 3., 4. og 5. gr. reglugerðar 192/1993, um innskatt. Um leið verði staðfest að réttur til innskatts skerðist ekki vegna móttöku á slíkum styrk.“
Til svars við erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt nær skattskylda samkvæmt lögunum til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sbr. þó 3. mgr. sama ákvæðis en þar er rakin sú þjónusta sem undanþegin er virðisaukaskatti. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að móttaka fjárframlaga sem slík hafi ekki í för með sér skattskyldu skv. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, heldur ráðist virðisaukaskattsskylda af því endurgjaldi sem innt er af hendi gegn framlaginu, hvort heldur það er í formi vöru eða þjónustu. Komi ekkert endurgjald fyrir fjárframlag er ekki um virðisaukaskattsskyldu að ræða.
Í erindinu kemur fram að hvorki styrkveitandinn né eigendur hans, Reykjavíkurborg og íslenska ríkið, muni þiggja nokkurt endurgjald fyrir umræddan styrk, hvorki beint né óbeint svo sem í formi afláttar eða annarra ívilnana. Sú skuldbinding sem styrkþegi undirgengst lýtur að því að rekin verði í tónlistarhúsinu um tiltekinn tíma menningar- og tónlistarstarfsemi. Verður af erindinu ráðið að sú starfsemi skuli vera í þágu alls almennings í landinu og annarra þeirra er starfseminnar vilja njóta. Ríkisskattstjóri lítur svo á að í þessari skuldbindingu felist ekki endurgjald fyrir móttekinn styrk, sem fellt verði undir hugtökin vinna og þjónusta í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Að framangreindu virtu og miðað við gefnar forsendur telur ríkisskattstjóri að ekki beri að telja umræddan styrk til virðisaukaskattsskyldrar veltu skv. 11. gr. laga nr. 50/1988.
Samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Í 2. mgr. 16. gr. er fjármálaráðherra veitt heimild til að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Það hefur fjármálaráðherra gert með reglugerð nr. 192/1993, um innskatt. Í II. kafla þeirrar reglugerðar er umfjöllun um innkaup sem ekki varða eingöngu sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar er heimilt að telja virðisaukaskatt af aðföngum, sem keypt eru til nota bæði vegna skattsskylds þáttar í starfsemi aðila og skattfrjáls þáttar (blönduð not), til innskatts í sama hlutfalli og sala skattskyldrar vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) hvers reikningsárs er af heildarveltu ársins.
Í erindinu er sú forsenda gefin að allar tekjur styrkþegans, aðrar en umræddur styrkur, verði vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi hans. Ekki verður því um það að ræða styrkþeginn selji þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 2. gr . laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Móttaka fjárframlagsins til hinnar virðisaukaskattsskyldu starfsemi sem mun fara fram í húsinu hefur ekki áhrif á hlutföllun innskatts líkt og sala á þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti sbr. framangreint. Móttaka framlagsins skerðir því ekki rétt styrkþega til færslu innskatts af kaupum á aðföngum til starfseminnar
Ríkisskattstjóri