Dagsetning Tilvísun
7. júlí 1997 808/97
Virðisaukaskattur – útflutningur hrossa, kaupumboðslaun.
Vísað er til bréfs yðar dags. 19. janúar sl. varðandi útflutning hrossa og funda um sama mál, fyrst 31. janúar sl. og síðan sameiginlegs fundar með ríkistollstjóra 12. mars sl. Í framhaldi af þeim fundi var málið til frekari skoðunar hjá ríkistollstjóra. Í bréfinu er vísað til bréfs ríkisskattstjóra um efnið frá 3. október 1996 og varpað fram nokkrum frekari spurningum og vangaveltum. Spurningarnar koma fram í sjö töluliðum:
- Yfirleitt semja kaupendur og útflytjendur um flutningsgjald sem eina upphæð fyrir innanlands- og útflutningskostnað. Í bréfinu frá 3. október kemur fram að heildarflutningskostnað megi færa undir liðinn flutningskostnað á tollskýrslu. Gildir það í þessu tilviki?
Svar: Meginatriðið gagnvart reglum um virðisaukaskatt er að flutningskostnaður sem tengist útflutningi komi fram á útflutningsskýrslu til þess að hann geti verið talinn undanþeginn virðisaukaskatti, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Um útfyllingu skýrslunnar er að öðru leyti vísað til þeirra reglna sem gilda við tollframkvæmd og túlkunar tollyfirvalda á þeim.
- Í bréfinu frá 3. október kemur fram að frumrit reikninga eigi að fylgja tollskýrslu. Stangast það á við bókhaldslög sem segja að kaupandi skuli halda frumriti reiknings?
Svar: Ríkisskattstjóri gerir ekki athugasemd við að lagt sé fram afrit reiknings með tollskýrslu. Um þetta atriði gilda ákvæði 5.-7. og 13. gr. reglugerðar nr. 228/1993, um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra. Framkvæmd hennar er í höndum tollstjóra og gilda því ákvarðanir þeirra í þessum efnum.
- Í bréfinu frá 3. október segir að dýralæknisskýrsla, upprunavottorð, frambréf og reikningur skuli fylgja tollskýrslu? Heilbrigðisvottorð gildir mjög takmarkaðan tíma og er það að auki oft ekki tilbúið fyrr en mjög skömmu fyrir brottför. Staðfesting frá B, þar sem fram kemur að útflutningur sé heimill á ákveðnu hrossi hefur verið tekin sem gild hjá tollayfirvöldum í stað upprunavottorða. Þess er óskað að svo megi vera áfram enda auðveldar það allan frágang fylgiskjala á þeim litla tíma sem útflytjendur hafa til að ganga frá útflutningsskjölum.
Svar: Hér gilda ákvarðanir tollyfirvalda, sbr. svar við spurningu nr. 2 og gerir ríkisskattstjóri ekki athugasemd við þá framkvæmd.
- Bent er á að sala sé ekki staðfest fyrir en heilbrigðisskoðun dýralæknis liggi fyrir sem gjarnan er framkvæmd með mjög skömmum fyrirvara. Á þeim tíma geti reynst erfitt að fá í hendur frumrit reiknings, sérstaklega þar sem seljendur búa vítt um landið. Þess er óskað að á því verði nokkur sveigjanleiki hvenær reikningur þarf að hafa borist tollstjóra, t.d. innan ákveðins tíma frá útflutningi.
Svar: Samkvæmt reglugerð nr. 228/1993, um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra skal framvísa reikningi við útflutning. Bent skal á að reglugerðin mælir því ekki mót að reikningurinn sé lagður fram í formi myndrits (fax) en um það gilda að öðru leyti ákvarðanir tollyfirvalda.
- Í bréfinu frá 3. október kemur fram að skilyrði þess að sala á hrossi sé undanþegin virðisaukaskatti sé að hrossið fari úr landi og að fyrir liggi skriflegt samkomulag um afhendingu. Hjálagt er eyðublað sem heitir “Staðfesting á útflutningi á hrossi/hrossum” sem lagt er til að geti gilt í þessum tilfellum.
Svar: Sú regla sem hér um ræðir hefur aðeins þýðingu þegar greitt er fyrir hross að hluta eða öllu leyti áður en til útflutnings kemur og útflutningur fer fram að loknu uppgjöri á því uppgjörstímabili sem greiðsla fellur á. Í þessum tilvikum getur seljandi ekki talið greiðsluna til undanþeginnar veltu nema með því að styðja það skjali sem staðfestir að hrossið hafi verið keypt til útflutnings. Sú staðfesting þarf að liggja fyrir þegar greiðsla er talin til undanþeginnar veltu og nægir ekki að það sé lagt fram eftir á. Skjalið þarf að vera undirritað af kaupanda til staðfestingar á að hann hafi keypt hross viðkomandi hross til útflutnings. Einnig upplýsingar um söluverð, fyrirframgreiðslur, áætlaðan útflutningstíma og hver greiðir útflutningskostnað auk nafns, kennitölu og heimilisfangs seljanda.
- Í bréfinu frá 3. október segir að bréf ríkisskattstjóra nr. 477 frá 3. júní 1993 haldi gildi sínu. Í því bréfi kemur fram að sölumiðlara sé heimilt að gefa út reikning í umboði seljanda, en taki greinilega fram á reikningi, svo og öðrum sölugögnum hver sé seljandi. Þetta er talið stangast á við ákvæði bréfs nr. 751 frá 3. október 1996.
Svar: Í bréfi nr. 477 frá 3. júní 1993 er tekið á þeirri tegund viðskipta þegar seljandi kaupir þjónustu flutningsmiðlara. Þá gera seljandi og miðlari samning sín á milli um umboðs- eða umsýslusölu miðlara í eigin nafni fyrir reikning seljanda (sjá nánar um skilyrði í því bréfi. Í síðara bréfinu er tekið á annarri tegund viðskipta, þ.e. þegar kaupandi á hrossi kaupir jafnframt þjónustu flutningsmiðlara. Í því tilviki getur flutningsmiðlari ekki gefið út reikning í nafni seljanda enda viðskiptin ekki gerð fyrir hans milligöngu né á grundvelli samnings við seljanda.
- Í mörgum tilfellum er verið að selja úr landi hross sem eru í eigu einstaklinga sem ekki eru með rekstur og meðhöndla hrossin sín eins og hvert annað lausafé. Hvaða kröfur má gera til þeirra um sölugögn, reikninga og annað?
Svar: Í tilvikum þar sem um er að ræða einstaka og tilfallandi sölu á hrossi sem ekki verður jafnað til viðskipta í atvinnuskyni nægir að seljandi gefi út kvittun til kaupanda sem þá skal lögð fram með útflutningsskýrslu í stað reiknings.
Að lokum skal tekið fram að taki miðlari að sér að annast kaup á hrossum eða öðrum vörum fyrir erlenda aðila telst þóknun hans fyrir þá þjónustu (kaupumboðslaun) til virðisaukaskattsskyldrar veltu, enda um að ræða þjónustu sem nýtt er hér á landi og tengist ekki útflutningi. Slík þóknun telst að sama skapi ekki til tollverðs, sbr. 1. tölul. stafliðar a. í 9. gr. tollalaga, nr. 55/1987, og ber því ekki að færa hana á útflutningsskýrslu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Jón H. Steingrímsson
Afrit:
Ríkistollstjóri