Dagsetning Tilvísun
11. júní 1991 274/91
Virðisaukaskattur – útflutningur þorramats.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. febrúar sl. , þar sem spurt er hvort félag Í í Ó í D geti fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af andvirðis þorramats sem það keypti af matvöruverslun hér á landi og fékk sendan til D.
Samkvæmt l. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt telst sala á vöru úr landi ekki til skattskyldrar veltu seljanda. Það þýðir að virðisaukaskattur reiknast ekki á þá sölu. Skilyrði þess að seljandi geti haldið sölu fyrir utan skattskylda veltu á þeim grundvelli að um sé að ræða útflutning er að hann varðveiti útflutningsskýrslu eða önnur sambærileg gögn til sönnunar því að vara hafi verið seld úr landi. Seljandi getur hins vegar ekki haldið sölu utan skattskyldrar veltu ef kaupandi flytur vöruna sjálfur til útlanda.
Ekki er ljóst af þeim gögnum sem fylgdu bréfi yðar hvort virðisaukaskattur hafi verið innheimtur af sölunni. Hafi verið heimilt að halda sölunni fyrir utan skattskylda veltu, sbr. ofanritað, án þess að það hafi verið gert, er yður bent á að snúa yður beint til seljanda vörunnar og leita eftir leiðréttingu þaðan.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.