Dagsetning                       Tilvísun
19. desember 1996                             777/96

 

Virðisaukaskattur – útgáfa á Vé

Vísað er til bréfs yðar, sem barst embættinu 21. nóvember 1996, þar sem spurst er fyrir um virðisaukaskatt vegna útgáfu V.

Í bréfi yðar er rakinn vinnsluferill V og hverjir vinna hvaða verk. Þjóðsaga er útgefandi ritsins en X á höfundaréttinn.

Samkvæmt 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er starfsemi rithöfunda undanþegin virðisaukaskatti. Á grundvelli þess ákvæðis er sala rithöfunda á hugverkum sínum undanþegin virðisaukaskatti. Umrætt framsal höfundaréttar fellur hér undir.

Í lokin spyrjið þér hvort innheimta eigi virðisaukaskatt af eftirfarandi:

  • X. fær ákveðið hlutfall af útsöluverði vegna útlagðs kostnaðar félagsins.
  • X. fær ákveðið hlutfall af útsöluverði sem sölulaun ef félagið selur V fyrir Þ þegar það er komið út.
  • X. fær ákveðið hlutfall af útsöluverði vegna höfundarréttar.

Til svars erindinu skal tekið fram að skattskylda samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær til hvers konar vöru og verðmæta, svo og vinnu og þjónustu, nema hún sé sérstaklega undanþegin skv. 3. mgr. 2. gr. laganna.

X. ber því að leggja virðisaukaskatt á alla þrjá þættina sem um er rætt í bréfinu. Hvað varðar síðasta þáttinn þá skal tekið fram að sala á höfundarétti (þegar það er ekki höfundurinn sjálfur sem framselur) telst vera framsal á óefnislegum réttindum, sem eru skattskyld samkvæmt meginreglu virðisaukaskattslaganna.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir