Dagsetning Tilvísun
18. október 1993 560/93
Virðisaukaskattur – útgáfustarfsemi
Vísað er til bréfs yðar, dags 11. október sl. til skattstjórans í Reykjavík sem framsendi það ríkisskattstjóra til afgreiðslu. Í bréfinu er óskað álits embættisins á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt vegna útgáfu blaðs og fréttablaðs félagasamtaka. Fram kemur í erindinu að um sé að ræða útgáfu félagasamtaka á tveimur blöðum, annars vegar blaðs sem er fræðilegt málgagn og hins vegar fréttablaðs sem birtir ýmsar upplýsingar frá samtökum og yfirvöldum og öðrum þeim sem þurfa að koma á framfæri upplýsingum til starfstéttarinnar s.s. auglýsingar um lausar stöður, námskeið og fleira þess háttar. Um fjármögnun útgáfunnar segir í gögnum með erindi yðar að annars vegar sé um að ræða bein framlög frá félaginu sem greiðist af árgjaldi og hins vegar sé um að ræða sölu á auglýsingum.
Ríkisskattstjóri hefur gefið út leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi sem fylgja hér hjálagt.
Í kafla 2.3 í leiðbeiningunum er fjallað um skráningarskyldu vegna varanlegrar og reglulegrar útgáfustarfsemi félagasamtaka. Að áliti ríkisskattstjóra með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fram hafa komið í bréfi yðar virðist útgáfustarfsemi yðar vera skráningarskyld og því ber yður að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af sölu auglýsinga ásamt því að innheimta 14% virðisaukaskatt af sölu blaðanna.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Grétar Jónasson.
Hjálagt: Leiðbeiningar um virðisaukaskatts vegna útgáfustarfsemi.