Dagsetning                       Tilvísun
30. nóvember 1993                            583/93

 

Virðisaukaskattur – útgáfustarfsemi

Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. júlí 1993, þar sem beðið er um endurmat ríkisskattstjóra á úrskurði er fram kemur í bréfi hans frá 22. júlí 1991 (bréf nr. 321/91), en þar er talið að útgáfa L sé ekki skráningarskyld starfsemi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

Fram kemur í bréfi yðar að það sé mat ykkar, að með álagningu virðisaukaskatts á áskriftargjald blaðsins og heimild til frádráttar á innskatti af prentun og öðrum aðföngum, kæmi útgáfan hagstæðar út fyrir félagið. Af þeim sökum sé óskað eftir endurmati ríkisskattstjóra.

Með hliðsjón af fyrra bréfi til ríkisskattstjóra þá kemur fram að tekjur af blaðinu standi ekki undir útgáfukostnaði, þegar svo stendur á þá ber aðilum ekki að skrá sig sem virðisaukaskattsskylda aðila. Þess má þó geta að frávik getur orðið frá þeirri meginreglu ef útgáfan er „markaðsvara“. Við mat á því hvort tiltekin útgáfa sé „markaðsvara“ má hafa eftirtalin atriði til viðmiðunar:

  1. Hafa atvinnufyrirtæki sambærilega útgáfustarfsemi með höndum bæði hvað varðar efni og framsetningu efnis?
  1. Eru aðrir en félagsmenn einnig áskrifendur að ritinu eða ef félagið er opið almenningi

– er líklegt að menn gangi í félagið gagngert í því skyni að fá áskrift að ritinu?

  1. Er útgáfustarfsemin umfangsmikill þáttur í heildarstarfsemi félagsins?

Ef svara má þessum spurningum játandi bendir það til þess að útgefandi sé skráningarskyldur þótt tekjur af útgáfunni séu lægri en gjöld.

Ekki verður talið að þær upplýsingar er fram koma í bréfi yðar gefi á nokkurn hátt tilefni til breytinga frá þeirri túlkun er kemur fram í fyrra bréfi ríkiskattstjóra þ.e. að blaðið sé ekki skráningarskylt.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkiskattstjóra

Grétar Jónasson