Dagsetning                       Tilvísun
22. júlí 1991                             294/91

 

Virðisaukaskattur – útgáfustarfsemi.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. apríl 1990, þar sem óskað er leiðbeininga ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatt af ritum sem stofnunin gefur út. Um er að ræða alþjóðlegt tímarit um grasafræði, A, Fjölrit um ransóknir á ýmsum sviðum náttúrufræðinnar og loks frælista sem sendir eru til grasagarða erlendis. Fram kemur í bréfi yðar að sölutekjur tímaritanna og fjölritanna standa aðeins undir broti af tilkostnaði við þau, en X stendur undir kostnaði við rekstur stofnunarinnar.

Til svars erindinu vísast til meðfylgjandi leiðbeininga um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi. Eins og þar kemur fram í kafla 2.4 lítur ríkisskattstjóri svo á að opinberir aðilar, þ.m.t. stofnanir á vegum sveitarfélaga, séu skráningarskyldir vegna útgáfustarfsemi sinnar ef hagnaður er af útgáfunni, þ.e. þegar tekjur af sölu og af auglýsingasölu er almennt hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti vegna útgáfunnar, enda nemi tekjur a.m.k. 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1991).

Skráning leiðir til þess að skylt er að innheimta og skila virðisaukaskatti af auglýsingasölu og fæst þá jafnframt endurgreiddur (frádreginn) sá virðisaukaskattur sem aðili greiðir vegna prentunar og annars beins útgáfukostnaðar. Sé aðili ekki skráningarskyldur hefur hann ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts (innskatts) af útgáfukostnaði.

Af því sem fram kemur í bréfi yðar virðist mega ráða að útgáfustarfsemi yðar sé ekki skráningarskyld.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.