Dagsetning                       Tilvísun
22. júlí 1991                             308/91

 

Virðisaukaskattur – útgáfustarfsemi.

Vísað er til bréfa yðar, dags. 12. og 20. febrúar 1990, þar sem óskað er leiðbeininga ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts að því er varðar (a) útgáfustarfsemi stofnunarinnar (tímaritið B, ritröðin A og F) og (b) hvort unnt sé að fá undanþágu frá greiðslu á virðisaukaskatti af bókum og tímaritum sem stofnunin fær send erlendis frá.

Til svars fyrri lið erindis yðar vísast til meðfylgjandi leiðbeininga um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi. Eins og þar kemur fram í kafla 2.4 lítur ríkisskattstjóri svo á að opinberir aðilar séu ekki skráningarskyldir vegna útgáfustarfsemi sinnar nema þegar hagnaður er af útgáfunni, þ.e. þegar tekjur af sölu og af auglýsingasölu er almennt hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti vegna útgáfunnar, enda nemi tekjur a.m.k. 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1991).

Skráning leiðir til þess að skylt er að innheimta og skila virðisaukaskatti af auglýsingasölu og fæst þá jafnframt endurgreiddur (frádreginn) sá virði.saukaskattur sem aðili greiðir vegna prentunar og annars beins útgáfukostnaðar. Sé aðili ekki skráningarskyldur hefur hann ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts (innskatts) af útgáfukostnaði.

Framkvæmd á innheimtu virðisaukaskatts í tolli, sem síðari hluti erindis yðar lýtur að, er ekki á valdsviði ríkisskattstjóra. Er yður bent á að snúa yður til ríkistollstjóra með málaleitanir þar að lútandi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.