Dagsetning Tilvísun
22. júlí 1991 311/91
Virðisaukaskattur – útgáfustarfsemi.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 4. mars 1991, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvernig fara skuli með virðisaukaskatt af ritunum A, V og K sem X gefur út. Fram kemur að tvö fyrstnefndu ritin eru send félagsmönnum gegn greiðslu árgjalds og A er einnig sent ýmsum aðilum án endurgjalds. K er send félagsmönnum gegn greiðslu árgjalds en einnig seld utanfélagsmönnum. þá segir í bréfi yðar að X er ekki ætlað að skila hagnaði en hún er mikilvægur hluti af starfsemi samtakanna og er ætlað að koma upplýsingum og stefnu sambandsins á framfæri við félagsmenn, fjölmiðla og stofnanir“.
Til svars erindinu skal vísað til leiðbeininga um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi sem ríkisskattstjóri hefur gefið út og fylgja hjálagðar.
Af því sem fram kemur í erindinu má ráða að kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfu X sé hærri en sölutekjur og aðrar beinar tekjur vegna útgáfunnar. Kemur enda fram í erindinu að útgáfan er ekki í hagnaðarskyni heldur þáttur í almennri starfsemi samtakanna. Ekki verður séð að sérstök sjónarmið um útgáfustarfsemi félagasamtaka, sem rakin eru í leiðbeiningum ríkisskattstjóra (kafli 2.3, a-liður), eigi við um útgáfu X.
Samkvæmt framansögðu er það álit ríkisskattstjóra að X sé ekki skráningarskylt vegna framangreindrar útgáfustarfsemi sinnar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.