Dagsetning Tilvísun
14. apríl 1990 48/90
Virðisaukaskattur – útlagður kostnaður.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. janúar 1990, þar sem óskað er umsagnar ríkisskattstjóra um meðferð útlagðs kostnaðar hjá einum umbjóðanda yðar með hliðsjón af lögum um virðisaukaskatt.
Í bréfi yðar segir að umbjóðandi yðar komi til með að eiga í erfiðleikum með að uppfylla skilyrði þess efnis að sölureikningur vegna kostnaðarins sé á nafni þjónustukaupa. Þetta stafi m.a. af því að umbjóðandi yðar sé í reikningsviðskiptum við flesta þá aðila sem verslað er við. Spurt er hvort það sé nægjanlegt að nafni og kennitölu þjónustukaupa sé bætt inn á nótuna með handskrift eða á annan hátt.
Til svars erindinu vill ríkisskattstjóri taka fram að til þess að kostnaður vegna einhverra viðskipta eða sölu geti talist útlagður kostnaður hjá seljanda verður að vera stofnað til hans sérstaklega vegna þeirra viðskipta. Þegar sú er raunin ætti ekki að vera erfiðleikum bundið að uppfylla þau þrjú skilyrði sem nauðsynleg eru skv. 19. gr. reglugerðar nr. 501/1989 til að halda megi kostnaði utan skattverðs.
Vegna séreðlis ýmissa opinberra vottorða og opinberrar gjaldtöku, svo sem stimpilgjalds, hefur ríkisskattstjóri fallist á að víkja megi frá skilyrðum 19. gr. að hluta, enda séu önnur tilgreind skilyrði uppfyllt. Eins og málavöxtum er lýst geta þessar sérstöku ástæður ekki átt við í tilviki umbjóðanda yðar.
Með vísan til framanritaðs getur ríkisskattstjóri ekki fallist á að nægjanlegt sé að umbjóðandi yðar skrái nafn þjónustukaupa á reikninginn. Viðskiptin verða að fara fram í hans nafni.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.