Dagsetning Tilvísun
20. des. 1990 181/90
Virðisaukaskattur – útleiga dráttarskipa o.fl.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. október sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á eftirfarandi atriðum:
(1) Virðisaukaskattsskyldu aðila er gera út dráttarskip og skipa er vinna í höfnum landsins, s.s. hafnsögubáta, og
(2) hvernig fara skuli með virðisaukaskatt ef skip er leigt til hafnarsjóðs bæjarfélags sem notar skipið við hafnarframkvæmdir og aðra þá vinnu sem snýr að viðhaldi hafna og þjónustu við þá sem eiga leið um höfnina, á hvaða upphæð virðisaukaskattur reiknist við framkvæmdir hafnarsjóðs við eigin höfn með eigin eða leigðum tækjum og hvort einhverju máli skipti hvers konar tæki um er að ræða, skrásett skip eða krana staðsettan í landi.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Um 1. lið:
Starfsemi hafnarsjóða er ekki skattskyld nema að því leyti sem þeir selja vöru eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 2. gr. reglug. nr. 248/1990. Í þessu sambandi verður að gera greinarmun á starfsemi dráttarskipa og hafnsögubáta. Í síðara tilvikinu verður að telja. að um sé að ræða þjónustu sem veitt er af hafnarsjóði vegna notkunar á höfninni. Þessi þjónusta er að áliti ríkisskattstjóra þáttur í starfsemi hafna og ekki í samkeppni. við atvinnufyrirtæki. Þjónusta dráttarbáta uppfyllir ekki þessi skilyrði, heldur virðist þar vera um að ræða flutningaþjónustu sem er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Samkvæmt þessu ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af þjónustu dráttarbáta – þó er slík þjónusta undanþegin skattskyldri veltu ef hún er veitt millilandafari og fyrir reikning þess, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt.
Um 2. lið:
Leiga á skipum (þó ekki skemmtibátum) er undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 6. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt. Eigin framkvæmdir hafnarsjóðs við hafnarframkvæmdir, s.s. dýpkunarframkvæmdir, er virðisaukaskattsskyld starfsemi að svo miklu leyti sem starfsemi þessi telst rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglug. nr. 248/1990.
Samkvæmt framansögðu ber hafnarsjóði að skila virðisaukaskatti af eigin notkun eigin eða leigðra tækja, þ.m.t. skips, sem notuð eru við skattskyldar framkvæmdir og skiptir ekki máli hvort notað er skrásett skip eða krani staðsettur í landi.
Um útreikning virðisaukaskatts hafnarsjóðs vísast til nefndrar reglugerðar nr. 248/1990. Fari skattskil eftir 4. gr. reglugerðarinnar skal ákveða skattverð (það verð sem virðisaukaskattur reiknast af) miðað við kostnaðarverð þess hluta heildarkostnaðar viðkomandi framkvæmda sem ekki hefur verið greiddur virðisaukaskattur af við kaup aðfanga. Samkvæmt þessari reglu ber hafnarsjóði, sem tekur skip á leigu vegna skattskyldra framkvæmda og greiðir ekki virðisaukaskatt af leigu þess, að miða skattverð vegna notkunar skipsins við leigugjaldið. Auk þess skal telja til skattverðs bein laun vegna framkvæmdanna með 30% álagi vegna launatengdra gjalda og annars sameiginlegs kostnaðar. Um álag þetta vísast til reglna ríkisskattstjóra, dags. 26. mars 1990.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.