Dagsetning                       Tilvísun
30. sept. 1992                            429/92

 

Virðisaukaskattur – úttektarmenn leigujarða.

Með bréfi, dags. 15. mars 1991, óskar landbúnaðarráðuneytið „eftir úrskurði ríkisskattstjóra um það hvort úttektarmenn jarða skv. ábúðarlögum nr. 64/1976 séu skyldir að framvísa reikningum svo sem um verktaka sé að ræða eða ekki“. Störfum úttektarmanna er nánar lýst svo:

„Samkvæmt 39. gr. ábúarlaga nr. 64/l976 skulu úttektarmenn vera tveir í hverjum hreppi. Hreppstjórar eru úttektarmenn hver í sínum hreppi, en hinn aðalúttektarmanninn skipar sýslumaður til 6 ára og tvo til vara. Að mati ráðuneytisins er hér ekki um verktakastarfsemi að ræða. Menn hafa þessa starfsemi ekki með höndum sem fasta atvinnu heldur er hér um að ræða hluta af embættisskyldum hreppstjóra sem honum ber að inna af höndum í starfi sínu, og að því er meðúttektarmenn snertir er um að ræða ótvíræða starfsskyldu samkv. ákvæðum ábúðarlaga. – Samkvæmt ákvæðum 41. gr. ábúðarlaga skulu úttektarmenn fá þóknun fyrir starf sitt eftir nánari reglum sem greinin setur.“

Ríkisskattstjóri skilur bréf yðar svo að ráðuneytið líti svo á að þóknun fyrir störf úttektarmanna samkvæmt jarðalögum sé launagreiðsla, sbr. l. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki þóknun fyrir sjálfstæða starfsemi þeirra, sbr. B-lið sömu greinar. Aðeins þeir sem hafa atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi með höndum eru skyldir til að innheimta og skila virðisaukaskatti. Launamenn innheimta ekki virðisaukaskatt af launum sínum.

Launamenn eru ekki bókhaldsskyldir sem slíkir.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.