Dagsetning                       Tilvísun
30. ágúst 1995                            695/95

 

Virðisaukaskattur – Varnarliðið

Vísað er til bréfs yðar dags. 25. janúar 1995, þar sem þér farið fram á frekari rökstuðning ríkisskattstjóra varðandi túlkun á orðinu “varnarlið” í 48. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988.

Í umræddu bréfi segir að eigi hafi í svar ríkisskattstjóra verið vikið að dómi Hæstaréttar frá 1956, bls. 777, en þar hafi Hæstiréttur talið til liðs Bandaríkjanna erlent verktakafyrirtæki sem starfaði á Keflavíkurflugvelli fyrir varnarliðið. Verktakafyrirtæki þetta starfaði að framkvæmdum fyrir varnarliðið, þ.e. hermálayfirvöld á Keflavíkurflugvelli. Dómur þessi fjallar um skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna meiðsla sem íslenskur starfsmaður fyrirtækisins varð fyrir í starfi. Var það álit dómsins að umrætt tilvik félli undir sérákvæði 2. mgr. 12. gr. viðbætisins. Enn fremur segir í dómi þessum að ákvæði 7. og 8. gr. viðbætisins séu sérákvæði og verði ekki almennt dregin af þeim ályktun um það hverjir skuli almennt teljast til liðs Bandaríkjanna. Ákvæði 7. og 8. gr. fjalla um skatta- og tollamál. Er þar gerður skýr greinarmunur á hvort um hervöld eða stjórnvöld Bandaríkjanna er að ræða eða menn í liði Bandaríkjanna. Í 3. tl. 7. gr. viðbætisins segir að enga skatta eða gjöld eða álögur skuli leggja á eignir sem stjórnvöld Bandaríkjanna afli á Íslandi fyrir Bandaríkin, umsýsluaðila sína eða lið er dveljast á Íslandi einungis í sambandi við framkvæmdir samkvæmt samningi þessum. Af skýru orðalagi þessa ákvæðis má vera fullljóst að einungis er átt við heryfirvöld en hvorki einstaka liðsmenn hersins né aðila sem eru starfandi innan varnarsvæðisins. Banki sá er fyrirspurn yðar lýtur að starfar innan herstöðvarsvæðisins á eigin vegum. Er því ólíku saman að jafna, sala til annarra aðila en varnarliðsins sjálfs, þótt starfansi séu innan svæðisins, getur ekki talist sala úr landi og gildir einu hvort þessir aðilar eru innlendir eða erlendir.

Í frumvarpi til laga um virðisaukaskatt kemur fram að eitt megineinkenna virðisaukaskatts sé hlutleysi. Hann hvorki ívilni né íþyngi einstökum greinum. Enn fremur segir í frumvarpinu að undanþágur séu ekki í samræmi við þá grundvallarhugmynd er liggi að baki virðisaukaskatti og slík mismunun á milli þjónustu torveldi einfalda og réttláta framkvæmd skattheimtunnar.

Af orðum þessum má ráða að ef ætlunin hefði verið að undanskilja skattskylda aðila samkvæmt 7. og 8. gr. viðbætisins skyldu til að greiða virðisaukaskatt af veittri þjónustu hér á landi þá hefði verið rík ástæða til að geta þess sérstaklega og ætti slík undanþága enn síður við fyrirtæki starfandi innan varnarsvæðisins, hvort sem það væri innlent eða erlent. Er og enn ríkari ástæða til sérstakrar umfjöllunar þar sem undanþágan hefði gengið þvert á fyrri framkvæmd, en samkvæmt söluskattslögum var gerður skýr greinarmunur á hvort um var að ræða þjónustu í þágu varnarliðsins, einstakra liðsmanna þess eða annarra sem starfa innan varnarsvæðisins.

Að síðustu skal minnt á þá meginreglu íslensks réttar að allar undanþágur skuli skýra þröngt og er þá síst ástæða til að túlka ákvæði 48. gr. rýmra en orðalag hennar og fyrri framkvæmd í skattamálum gefa til kynna.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á því að svara bréfi yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir