Dagsetning                       Tilvísun
11. febrúar 1992                            386/92

 

Virðisaukaskattur vegna byggingarframkvæmda.

Með bréfi yðar, dags. 10. desember sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort hlutafélag eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna byggingar „íbúðarhúss (á bújörð), sem fyrirhugað er að nota í samstarfi við ferðaþjónustu bænda, þ.e. fyrir ferðamenn og veitingasölu“.

Ekki er ljóst af fyrirspurninni hvort ætlunin sé að nota umrætt hús eingöngu vegna sölu á gistiþjónustu og veitingum eða einnig (aðallega) sem húsnæði til íbúðar starfsmanna.

Eftir ákvæðum reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, er byggjendum ábúðarhúsnæðis endurgreiddur virðisaukaskattur sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna á byggingarstað, þó ekki af vinnu sem tiltekin er í 4. gr. reglugerðarinnar. Skilyrði endurgreiðslu er að um sé að ræða húsnæði sem byggt er samkvæmt skipulagi sem íbúðarhúsnæði til samfelldrar notkunar á öllum tímum árs. Það raskar ekki rétti til endurgreiðslu þótt hluti almenns íbúðarhúsnæðis sé notaður hluta árs til leigu á gistingu fyrir ferðamenn.

Endurgreiðslur skv. reglugerð nr. 449/1990 taka ekki til vinnu við atvinnuhúsnæði, svo sem húsnæði sem eingöngu er ætlað til útleigu fyrir ferðamenn og skyldan rekstur. Útleiga gistirýmis er utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga og því fæst virðisaukaskattur af húsnæði til þeirrar starfsemi ekki endurgreiddur sem innskattur. Virðisaukaskattur af húsnæði sem skráningarskyldur aðili notar eingöngu til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi, svo sem veitingasölu, telst til innskatts hans. Um frádrátt innskatts þegar húsnæði er bæði notað til skattskyldrar og undanþeginnar starfsemi vísast til 7. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt.

Skráningarskyldir aðilar mega ekki telja virðisaukaskatt af öflun eða rekstri íbúðarhúsnæðis að neinu leyti til innskatts. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt aðili noti húsnæðið einnig vegna atvinnu sinnar.

Til fróðleiks fylgir bréf ríkisskattstjóra, dags. 18. júní 1990, um virðisaukaskatt af ferðaþjónustu bænda.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.