Dagsetning Tilvísun
23. feb. 1993 460/93
Virðisaukaskattur vegna hótelreksturs í leiguhúsnæði.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. júní 1992, þar sem óskað er eftir upplýsingum um mögulega endurgreiðslu sveitarfélags á virðisaukaskatti vegna kostnaðar við viðhalds á skólabyggingu sem einnig er leigt út til hótelreksturs.
1. Spurt er hvort sveitarfélag geti fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af þeim framkvæmdum sem sannanlega eru vegna veitingasölu hótelsins.
Samkvæmt 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er starfsemi skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Því er ekki heimilt að telja til innskatts neinn virðisaukaskatt sem skólinn greiðir af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem varðar hinn skattfrjálsa rekstur skólans.
Samkvæmt 10. gr. reglugerðar um innskatt nr. 81/1991, með síðari breytingum, mega ríki, bæjar- og sveitafélög og stofnanir og fyrirtæki þeirra, sem skattskyld eru skv. 4. tl. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt, einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Hið sama gildir um aðra virðisaukaskattsskylda aðila sem undanþegnir eru tekju- og eignarskatti skv. 4. gr. laga nr. 75/1981. Þá á hið sama við um innskatt af skattskyldum eigin notum þeirra aðila er greinir í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/l988.
Sveitarstjórn er með skólahald í tilteknu húsnæði, en leigir þar jafnframt út aðstöðu til hótelreksturs. Hér er um blandaðan rekstur opinberra aðila að ræða, og því ekki heimilt samkvæmt framansögðu að nýta sér innskatt af framkvæmdum vegna veitingasölu hótelsins.
2-3. Hér berið þér fram spurningu er byggir á jákvæðu svari við fyrstu spurningu, þ.e. hvort sveitarfélagið geti einnig fengið greiddan virðisaukaskatt af framkvæmdum á árinu 1991. Með hliðsjón af svari í fyrsta lið verður að svara þeirri spurningu neitandi.
Einnig spyrjið þér hvernig haga eigi málum miðað við óbreytt rekstrarfyrirkomulag. Hér verður einnig að vísa til fyrsta liðar, þar sem segir að um blandaðan rekstur opinberra aðila sé að ræða, og sveitarstjórn því ekki heimilt að nýta sér innskatt af viðhaldi hússins.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.