Dagsetning                       Tilvísun
23. feb. 1993                            461/93

 

Virðisaukaskattur vegna listahátíðar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. maí 1992, þar sem spurt er um virðisaukaskatt af fyrirhugaðri sölu veitinga á listahátíð og áhrifa þeirrar sölu á skattlagningu aðgöngumiða.

  1. Spurt er, hvort slík kaffisala sé virðisaukaskattsskyld.

      Svar: Veitingasala til almennings er virðisaukaskattsskyld starfsemi ef sala vara og þjónustu fer yfir kr. 185.200.-

  1. Spurt er, hvort hægt sé að fá undanþágu frá virðisaukaskattsskyldri kaffisölu vegna listahátíðar.

      Svar: Enginn lagaheimild er fyrir slíkri undanþágu.

  1. Spurt er, hvaða áhrif þessi kaffisala hafi á sölu aðgöngumiða.

     Svar: Aðgangseyrir að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum er undanþegin virðisaukaskatti, enda tengjast samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi, sbr. 4. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Undanþágan er tæmandi talin og nær einungis til áður nefndra skemmtana. Samkoma fellur ekki undir undanþáguákvæðið ef veitingar eru seldar eða framreiddar á meðan dagskrá samkomu stendur, þ.e. meðan t.d. tónlistarflutningur eða kvikmyndasýning fer fram. Sala heitra máltíða, áfengra drykkja og hressingar (kaffi, gosdrykkir) telst veitingasala í þessu sambandi. Veitingasala utan þess salar þar sem tónleikar eru haldnir, kvikmynd sýnd o.s.frv. hefur ekki áhrif á undanþágu frá virðisaukaskatti.

Veitingasala er þannig skattskyld og ber að halda henni skýrt aðgreindri frá aðgöngumiðasölu til að komast hjá skattinnheimtu vegna miðasölu á áður nefndar tegundir lista- og menningarstarfsemi.

Beðist er velvirðingar á töfum við svörun þessarar fyrirspurnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.