Dagsetning                       Tilvísun
23. feb. 1993                            451/93

 

Virðisaukaskattur vegna næringarráðgjafar

Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. mars 1992, þar sem óskað er eftir endurskoðuðu áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af þjónustu, sem felst í ráðgjöf á sviði matvæla- og næringarmála. Segir í bréfi yðar að þjónusta matvælafræðinga og næringarfræðinga sé fólgin í einstaklingsráðgjöf, fyrirlestrum og úttektum á mötuneytum.

Ýmis heilbrigðisþjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 1. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Beinlínis er tekið fram að lækningar og tannlækningar séu undanþegnar virðisaukaskatti, en jafnframt er „önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta“ undanþegin. Við ákvörðun þess hvort tiltekin þjónusta falli undir undanþáguákvæðið verður starfsemin að mati ríkisskattstjóra að uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Um sé að ræða þjónustu heilbrigðisstéttar sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög       um heilbrigðismál.

2. Almennt sé þjónusta

a) veitt einstaklingum á grundvelli tilvísunar frá lækni eða

b) hún greidd af Tryggingarstofnun ríkisins eða sjúkrasamlagi að hluta eða fullu.

Næringarráðgjöf, eins og henni er lýst í bréfi yðar, getur fallið undir framangreinda skilgreiningu, en almenn ráðgjöf sem ekki er veitt á grundvelli tilvísunar læknis eða er greidd af Tryggingarstofnun ríkisins er skattskyld.

Fyrirlestrar til menntunar eða endurmenntunar heilbrigðisstétta eru undanþegnir skattskyldu skv. 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, en það ákvæði er túlkað þannig af ríkisskattstjóra að það nái m.a. til faglegrar menntunar og endurmenntunar í sambandi við atvinnu manna. Undanþáguákvæðið tekur bæði til námskeiðishaldara og einstakra fyrirlesara sem starfa sem „verktakar“ við kennslu. Sé hins vegar um almennan fyrirlestur að ræða, sem ekki er í tengslum við faglega menntun, þá fer um skattskyldu eftir reglum um ráðgjöf, sbr. það sem áður segir um það atriði.

Úttekt mötuneyta er skattskyld starfsemi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.