Dagsetning Tilvísun
17. janúar 1994 609/94
Virðisaukaskattur vegna sameiginlegs kostnaðar rekstraraðila
Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. nóvember 1993, þar sem óskað er upplýsinga um hvernig fara skuli með virðisaukaskatt af sameiginlegum kostnaði fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka vegna sameignar sem felst í göngugötu og bílastæðum milli eigna aðilanna og hvort unnt sé fyrir skráða aðila að nýta sér innskatt af útlögðum kostnaði vegna sameignarinnar. Fram kemur í bréfi yðar að sameignin felst í 22 eignarhlutum og hefur félag (Svæðisfélag um göngugötu) verið stofnað um sameignina. Svæðisfélagið hefur einn starfsmann í vinnu og er hlutverk félagsins að reka, viðhalda og hafa umsjón með framkvæmdum á göngugötunni og bílastæðum á milli rekstraraðilanna, þ. e. sameigninni.
Að áliti ríkisskattstjóra er um tvær leiðir að velja í þessu máli:
- Samkvæmt l. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hvílir skylda til að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti á öllum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Í skilningi laganna má telja svæðisfélagið virðisaukaskattskyldan aðila enda innir það af hendi þjónustu til handa þeim 22 rekstraraðilum sem hlut eiga að sameigninni. Svæðisfélagið ætti því að tilkynna skattstjóra starfsemi sína og leggja virðisaukaskatt á þann kostnað sem það gerir reikning fyrir og fá innskatt af þeim aðföngum sem um ræðir. Reikningar þeir sem svæðisfélagið sendir hverjum aðila fyrir sig yrðu þar af leiðandi með virðisaukaskatti sem þeir aðilar, sem skráðir eru, gætu nýtt sem innskatt.
- Í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, er að finna undantekningareglu frá því að skjöl, sem færsla innskatts í bókhald er byggð á, skuli uppfylla skilyrði II. kafla reglugerðarinnar, sbr. l. mgr. 15. gr. 2. mgr. 15. gr. heimilar að færsla á innskatti vegna sameiginlegra innkaupa tveggja eða fleiri rekstraraðila, sem einn sölureikningur er gefinn út fyrir, byggist á sameiginlegri greinargerð þar sem fram komi nafn og kennitala allra kaupenda, svo og skipting verðs og virðisaukaskatts. Einnig þarf að árita á frumrit sölureiknings hver varðveiti það og skal ljósrit áritaðs sölureiknings liggja fyrir í bókhaldi allra aðila ásamt greinargerð, ef hún er gerð á sérstöku skjali.
Ef leið 2, hér að ofan, er valin er það skilyrði að reikningar vegna sameignarinnar séu ekki stílaðir á svæðisfélagið þar sem að slíkir reikningar teljast ekki kaup tveggja eða fleiri rekstraraðila, eins og 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar gerir að skilyrði, heldur er þá um að ræða kaup eins aðila, svæðisfélagsins, sbr. einnig ákvæði reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir