Dagsetning Tilvísun
2. nóvember 1993 566/93
Virðisaukaskattur vegna símaþjónustu í flugvélum
Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. júlí 1993, varðandi virðisaukaskatt vegna símaþjónustu í flugvélum.
Í bréfi yðar kemur fram að Póstur og sími hefur samið við bandaríska fyrirtækið I um afnot af íslenska símakerfinu. I hyggst setja upp síma í flugvélar til afnota fyrir farþega og hefur gert samning við nokkur flugfélög þar að lútandi. Fyrirkomulag verði með þeim hætti að símtæki verði við hvert sæti í flugvélinni. Farþegi geti tekið upp símann, gefið upp sérstakt kortanúmer og þannig fengið són. Hann velur síðan númer landsins og símanúmer þess sem hann vill hafa samband við. Símtalið fari um sendi í flugvélinni og í stöðvar á jörðu niðri, en þaðan fari símtalið eins og hvert annað símtal um símstöðvar frá Íslandi. I muni hafa ákveðin símanúmer hér og Póstur og sími sendi reikninga til þeirra fyrir símanotkun samkvæmt skrefatalningu, svo og fyrir línuleigur og viðgerðar- og viðhaldsþjónustu.
Lagðar eru fram eftirfarandi fjórar spurningar í bréfi yðar:
- Ber að leggja virðisaukaskatt á símtöl sem fara hér í gegn?
Svar: Símtöl sem fara fram í millilandaloftförum teljast ekki til skattskyldrar veltu samkvæmt 1. tl. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
- Á að leggja virðisaukaskatt á línuleigur frá íslensku stöðvunum, en um er að ræða a.m.k. tvisvar sinnum fjórar línur.
Svar: Geti kaupandi þjónustu (I) – ef starfsemi hans væri skráningar-skyld hér á landi samkvæmt virðisaukaskattslögum – talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts samkvæmt 15. og 16. gr. nefndra laga, þá telst línuleigan ekki til skattskyldrar veltu samkvæmt b-lið 1. mgr. 1. gr., sbr. 6. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, enda teljast línurnar ekki til flutningatækja í skilningi þessa ákvæðis.
- Á að leggja virðisaukaskatt á vinnu sem seld er I vegna viðhalds- og viðgerðarþjónustu í stöðvunum sem reistar verða, en samkvæmt samningi greiða þeir allt viðhald.
Svar: Vinna sú sem tengist viðhaldi á leigu línanna er undanþegin skattskyldri veltu samkvæmt 7. tl. 2. gr., að uppfylltu skilyrði b-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 194/1990. Þjónusta sem varðar fasteignir, í þessu tilviki stöðvarnar sjálfar, er aftur á móti skattskyld samkvæmt 1. tl. 3. gr. reglugerðarinnar.
- Á að leggja virðisaukaskatt á aðstöðugjald, þ.e. vegna leigu á húsnæði rafmagnsnotkunar o.þ.h.?
Svar: Samkvæmt 8. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti. Hugtakið fasteignaleiga tekur fyrst og fremst til þess þegar leigusali lætur leigutaka í té svo víðtæk afnot eignar sinnar að þau jafnist nokkurn vegin á við raunveruleg umráð eiganda (orðalagið raunveruleg umráð er hér notað til aðgreiningar frá lagalegum umráðum, svo sem rétti til sölu og veðsetningar). Um gerninga sem veita afnot af húsnæði er höfð hliðsjón af því hvort lög nr. 44/1979, um húsaleigsamninga taki til réttarsambandsins.
Þótt afnot af fasteign séu þáttur í seldri þjónustu af öðru tagi (aðstöðuleiga) er ekki unnt að fella þjónustuna að hluta eða í heild undir fasteignaleiguákvæðið í 8. tl. 3. mgr. 2. gr. laganna.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson